Dómur Hæstaréttar um stjórn fiskveiða

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 14:24:21 (1654)

1998-12-04 14:24:21# 123. lþ. 33.95 fundur 138#B dómur Hæstaréttar um stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[14:24]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Sá dómur Hæstaréttar sem við ræðum í dag fjallar um ágreiningsefni sem hefur lengi verið uppi enda hrópa nú nokkrir að loksins hafi réttlætið náð fram að ganga. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki viss um að svo sé í öllu efni enda segir í niðurstöðum dómsins að hann taki aðeins til mjög afmarkaðs viðfangsefnis sem hafi komið fram í máli stefnanda. Um lögin sem dómurinn snýr að verðum við að viðurkenna að þau eru í eðli sínu efnahagsleg lög, lög um efnahagslegt viðfangsefni. Þau hafa snúist um að ná fram varfærni í nýtingu auðlindar í stað ofveiði og öðrum þræði um að skapa fyrirtækjum í viðkomandi starfsgrein eðlilega starfsmöguleika. Undir liggur það sem við höfum oft kallað fjöregg þjóðarinnar, efnahagslegir möguleikar hennar.

Herra forseti. Það kann að vera að í upphafi þessa viðfangsefnis hafi menn nálgast það á þeim grundvelli að það kynni að vera eða mundi vera tímabundið og má vera að það sé það atriði sem dómurinn leggur áherslu á. Hann segir einmitt að það kunni að hafa verið réttlætanlegt að koma á tímabundinni vernd fiskimiðanna með þeim hætti sem orðið hefur en telur það ekki standast til ómunatíðar. Hins vegar verð ég að viðurkenna, herra forseti, að hættan er sú að ef við förum að oftúlka þennan dóm og þær niðurstöður sem birtast í honum kynnum við að lenda í því óefni að fara að skilja að annars vegar rétt fiskiskipa og útgerðarfyrirtækja til að nytja fiskimið og fiskimiðin sjálf og ætlum þá kannski mönnum að fara á stígvélum til sjávar, eða hvað? Ég velti líka fyrir mér, herra forseti, hvaða afleiðingar og áhrif það kann að hafa á möguleika byggðanna úti um landið sem eru velflestar eingöngu sjávarútvegsbyggðir og íbúar þar hafa nánast að engu öðru að hverfa. Þótt ekki væri nema fyrir þessar tvær ástæður tel ég nauðsynlegt, herra forseti, að við rösum ekki um ráð fram og oftúlkum ekki þennan dóm en gefum okkur tíma til að fara vel ofan í saumana.