Dómur Hæstaréttar um stjórn fiskveiða

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 14:33:15 (1658)

1998-12-04 14:33:15# 123. lþ. 33.95 fundur 138#B dómur Hæstaréttar um stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), BH
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[14:33]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Hæstiréttur Íslands hefur kveðið upp dóm sem án efa verður að teljast tímamótadómur um það kerfi sem við höfum búið við um úthlutun veiðiheimilda. Hvernig sem á málin er litið hefur þessi æðsti dómstóll okkar Íslendinga sýnt löggjafanum í tvo heimana og stoppað af þá ótrúlegu fásinnu sem hefur viðgengist í þessum efnum.

Það er reyndar hlægilegt að heyra viðbrögð þeirra manna sem hvað harðast hafa barist fyrir núverandi kerfi á úthlutun veiðiheimilda sem reyna hver um annan þveran að geta lítið úr þessum afdráttarlausa dómi Hæstaréttar. En dómurinn er einfaldlega svo skýr að ekki er hægt að mistúlka hann. Hæstiréttur segir, með leyfi forseta:

,,Það er heimilt og í samræmi við stjórnarskrá að takmarka fiskveiðar í landhelgi Íslands ef uggvænlegt þykir að fiskstofnar séu í hættu. Hæstiréttur telur ekki efni til þess að hagga því mati löggjafans að slíkar takmarkanir hafi verið nauðsynlegar. Slíkar takmarkanir setja hins vegar skorður við atvinnufrelsi manna og þess vegna er nauðsynlegt að þær samrýmist grundvallarreglum stjórnarskrárinnar.``

Hæstiréttur tekur síðan fram að dómstólar eigi að meta það hvort löggjafinn hafi gætt réttra sjónarmiða að þessu leyti. Áréttað er að slíkt mat þurfi að gera í ljósi hinnar almennu stefnumörkunar sem kemur fram í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða, þ.e. að fiskstofnarnir séu sameign íslensku þjóðarinnar, auk þess sem skoða þurfi stjórnarskrárákvæði um jafnræði og atvinnufrelsi.

Dómurinn tekur síðan afdráttarlaust af skarið hvað þetta varðar, herra forseti, og segir að sú tilhögun að binda úthlutun veiðiheimilda við skip á þann hátt sem gert hefur verið feli í sér mismunun á milli þeirra sem leiða rétt sinn til skipaeignar á tilteknum tíma og hinna sem ekki hafa átt og eiga þess ekki kost að komast í slíka aðstöðu. Og hún gengur einfaldlega ekki. Hæstiréttur segir að þessi skipan standist ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og atvinnufrelsisákvæði hennar.

Rétt er það sem fram hefur komið að Hæstiréttur hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort ráðuneytinu hafi verið rétt að úthluta þeim einstaklingi sem höfðaði málið veiðileyfi, en svo mikið er ljóst að því var óheimilt að synja honum á þeim forsendum sem eru grundvöllurinn undir því kerfi sem við búum við í dag og þetta prinsipp er það mikilvægasta í þessu máli, herra forseti, og við því þarf löggjafinn að bregðast nú þegar.