Dómur Hæstaréttar um stjórn fiskveiða

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 14:35:35 (1659)

1998-12-04 14:35:35# 123. lþ. 33.95 fundur 138#B dómur Hæstaréttar um stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[14:35]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Hæstiréttur hefur fellt dóm sem dregur í efa heimild löggjafans til þess að ákveða að einstaklingar geti átt einkarétt á því að sækja fisk úr sjó eða rétt til úthlutunar veiðileyfa til að geta notið aflahlutdeildar. Með þessum dómi vakna margar spurningar, herra forseti, um þær sjálfvirku breytingar sem orðið hafa á réttindum sem fylgja því í dag að fá úthlutað kvóta. Þar má telja leigu og sölu þeirra heimilda, erfðir, afskriftir, færslu á efnahagsreikninga og síðast en ekki síst veðsetningu aflaheimilda með skipi.

Á 121. löggjafarþingi var samþykkt heimild til þess að veðsetja aflahlutdeild fiskiskips með skipi. Þessum löggjörningi mótmælti ég og tel brjóta gegn sameignarákvæði 1. gr. laga um stjórn fiskveiða um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Ef ekki er heimilt samkvæmt dómi Hæstaréttar að úthluta veiðiheimildum til langs tíma, sem í þessu tilviki eru átta ár, hvernig er þá hægt að veðsetja þessa sömu aflahlutdeild, sameign þjóðarinnar, til 15 eða 30 ára? Úthlutunin á veiðileyfi til skipa byggir á 5. gr. Þessar og margar fleiri spurningar, herra forseti, hljóta að vakna og það verður að reyna að svara þeim á hinu háa Alþingi. Það er mjög brýnt vegna þess að dómurinn setur helsta atvinnuveg þjóðarinnar í uppnám og við því verður að bregðast skjótt og örugglega.