Dómur Hæstaréttar um stjórn fiskveiða

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 14:37:22 (1660)

1998-12-04 14:37:22# 123. lþ. 33.95 fundur 138#B dómur Hæstaréttar um stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), GE
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[14:37]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. ,,Dómur Hæstaréttar ... er hiklaust einhver sá afdrifaríkasti í sögu Hæstaréttar.`` Svo segir í opnugrein Morgunblaðsins í dag. Ég vil segja þetta: Alþingi hefur alltaf getað breytt lögunum en þar hefur ekki verið meirihlutavilji til þess að breyta þeim. Ég hef alla tíð verið í andstöðu við framkvæmd laganna, sérstaklega hvað varðar brottkast og þá mismunun sem felst í framkvæmd laganna. Ég hef sérstaklega gagnrýnt áhrif kerfisins á byggðir landsins sem eiga sitt undir fiskveiðum. Loksins kom að því að Hæstiréttur Íslands varð sammála hæstarétti fólksins. Nær allir landróðrarsjómenn hafa haft sambærilega skoðun og kemur fram í Hæstaréttardómnum.

Dómur Hæstaréttar er áfellisdómur yfir úthlutunarkerfi aflaheimilda. Sífelld höfnun umsókna einstaklinga um aflaheimildir og veiðileyfi af hálfu hæstv. sjútvrh. er ólögleg. Ég leyfi mér að draga ályktanir. Ég tel að höfnun veiðileyfis til sjómanna eftir margra ára starf á sjó sé lögbrot eða ígildi þess. Ég tel að höfnun leyfis til viðbótarafla þannig að sjómenn hafi fulla atvinnu af veiðum sé lögbrot eða ígildi þess. Ég tel að níu daga skömmtun til krókabáta sé lögbrot eða ígildi þess.

Um viðbrögð hæstv. forsrh. segi ég þetta: Hann er enginn yfirhæstiréttur.