Dómur Hæstaréttar um stjórn fiskveiða

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 14:39:12 (1661)

1998-12-04 14:39:12# 123. lþ. 33.95 fundur 138#B dómur Hæstaréttar um stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), Flm. RG
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[14:39]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Hæstiréttur sendir okkur sterk skilaboð með úrskurði sínum og þess vegna ræðum við þetta mál í dag. En Alþingi mun að sjálfsögðu fara ítarlega í málið.

Sjútvrh. svarar á þá lund að dómurinn hafi ekki í för með sér grundvallarbreytingu, hann gildi fyrst og fremst um 5. gr., að ef dómurinn fjallaði um 7. gr. og úthlutun veiðiheimilda þá hlyti sjö manna dómur að hafa verið skipaður. En eftir situr sú spurning hvað dómurinn geti þýtt þar sem úthlutun kvóta í 7. gr. lýtur sömu grundvallaratriðum og veiðileyfið í 5. gr. og úthlutun byggir jafnframt á veiðileyfum.

Herra forseti. Það er alveg ljóst að 5. gr. stenst ekki stjórnarskrána, jafnréttisákvæði sem lögfest var 1995. Henni verður að breyta. Hvort dómurinn hefur víðtækari afleiðingar verður ekki ljóst fyrr en það mál hefur verið skoðað af sérfræðingum.

Herra forseti. Alþingi á að sjálfsögðu líka að láta sérfræðinga skoða þetta mál. Nú er það komið inn á okkar borð í raun og veru og Alþingi á að láta sína eigin sérfræðinga skoða þessa löggjöf og hafa skoðun á málunum þegar frumvörp framkvæmdarvaldsins koma hingað inn.

Herra forseti. Þetta hefur verið málefnaleg umræða og ég þakka fyrir hana.