Samningur um Norræna fjárfestingarbankann

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 15:07:05 (1665)

1998-12-04 15:07:05# 123. lþ. 33.17 fundur 297. mál: #A samningur um Norræna fjárfestingarbankann# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[15:07]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þeirri þáltill. sem hér liggur fyrir er leitað heimildar Alþingis til að fullgilda samning milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um Norræna fjárfestingarbankann sem gerður var í Ósló 23. október 1998.

Norræni fjárfestingarbankinn var stofnaður árið 1975 sem sameiginleg alþjóðleg fjármálastofnun Norðurlanda til að styrkja norræna samvinnu og efnahag landanna með því að veita lán og ábyrgðir með bankakjörum til að örva fjárfestingar á Norðurlöndum og efla útflutning þeirra. Til grundvallar lá samningur milli Danmerkur, Íslands, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um stofnun Norræna fjárfestingarbankans sem gerður var í Kaupmannahöfn 4. desember 1975. Samningurinn öðlaðist gildi 1. júní 1976 og fengu ákvæði hans þá jafnframt lagagildi hér á landi.

Með aukinni alþjóðavæðingu atvinnulífs á Norðurlöndum og stuðningi eigenda hans hefur starfsemi bankans orðið alþjóðlegri. Lán og ábyrgðir eru nú ekki aðeins veittar til verkefna á Norðurlöndum heldur einnig utan þeirra. Þannig er hlutverk bankans nú að nýta traust lánshæfi á alþjóðamarkaði til að veita lán á almennum bankakjörum til fjárfestingarverkefna einkaaðila og opinberra aðila, bæði í þágu Norðurlanda og þeirra ríkja utan Norðurlanda sem fá lán eða ábyrgðir frá bankanum. Í ljósi aukinnar alþjóðlegrar starfsemi bankans og þeirrar auknu áhættu sem því fylgir hefur verið talið mikilvægt að treysta með formlegum hætti alþjóðlega stöðu hans.

Meginmarkmið samningsins er að skýra og treysta réttarstöðu bankans sem alþjóðlegrar fjármálastofnunar, meðal annars hvað varðar friðhelgi, undanþágu frá tollum og óbeinum sköttum, svo og tiltekin ferðafríðindi. Með þessu móti verður bankanum gert kleift að starfa sem alþjóðleg fjármálastofnun, innan Norðurlanda sem utan, með sömu stöðu og aðrar sambærilegar alþjóðlegar stofnanir sem bankinn starfar með.

Hinn nýi samningur um Norræna fjárfestingarbankann sem mun leysa eldri samninginn af hólmi verður lagður fyrir þjóðþing allra aðila og er stefnt að því að hann öðlist gildi í upphafi ársins 1999. Þegar samningurinn hefur öðlast gildi verða samþykktir bankans endurskoðaðar og lagðar fyrir norrænu ráðherranefndina til samþykktar.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 98/1992, um friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana, njóta þær og tilgreindir aðilar þeim tengdir þeirrar friðhelgi og þeirra forréttinda hér á landi sem kveðið er á um í alþjóðasamningum sem öðlast hafa stjórnskipulegt gildi að því er Ísland varðar. Í ljósi þessa er ekki þörf á að lögfesta hinn nýja samning eins og gert var með áðurnefndum lögum nr. 26/1976 að því er eldri samninginn varðar. Síðarnefndi samningurinn fellur úr gildi við gildistöku nýja samningsins og þarf þá að fella lög nr. 26/1976 úr gildi.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.