Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 15:18:11 (1669)

1998-12-04 15:18:11# 123. lþ. 33.14 fundur 176. mál: #A Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., Frsm. minni hluta PHB
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[15:18]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta efh.- og viðskn. við frv. til laga um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda.

Sjóðfélagar Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda eru launþegar og þeir sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og ekki hafa fullnægt tryggingarskyldu sinni með aðild að viðurkenndum lífeyrissjóðum samkvæmt 7. gr. gildandi laga. Annaðhvort er þetta fólk í sjóðnum af því að það átti ekki sjálfsagðan rétt til að greiða í annan lífeyrissjóð eða að það hefur kosið að greiða ekki í annan lífeyrissjóð og vill heldur greiða í Söfnunarsjóðinn. Þetta fólk er ekki í stéttarfélagi því að þá bæri því að greiða í lífeyrissjóði viðkomandi stéttarfélags. Það greiðir heldur ekki í aðra lífeyrissjóði vegna þess starfs sem veitir þeim aðild að þessum sjóði. Oft er um einyrkja að ræða sem greiða allt iðgjaldið sjálfir, bæði 4 og 6 prósentin.

Í kjölfar gildistöku laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða má búast við að sjóðfélögum fjölgi mjög í Söfnunarsjóðnum því að nú er sterkara eftirlit með því að menn greiði iðgjald til lífeyrissjóðs, og þeir sem ekki sinna skyldunni annar staðar eiga að greiða í Söfnunarsjóðinn. Þetta fólk kemur alls staðar frá.

Núverandi ákvæði um skipun stjórnar er ekki í neinum tengslum við núverandi sjóðfélaga né þá sem koma nýir inn eða við þá hagsmuni sem þessir sjóðfélagar hafa af ávöxtun og rekstri sjóðsins. Þetta varpar upp þeirri spurningu hver eigi Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda.

Það er hafið yfir allan vafa, eins og kom fram hjá hv. frsm. nál. meiri hluta efh.- og viðskn., að sjóðfélagar eiga réttindi hjá sjóðnum sem og makar þeirra og börn og einnig makar og börn þeirra sjóðfélaga sem hafa fallið frá. Eingöngu þetta fólk á rétt til greiðslu úr sjóðnum. Samtök sjóðfélaga, verkalýðsfélög, samtök launagreiðenda, atvinnurekendafélög eða launagreiðendurnir sjálfir eiga engan rétt til greiðslna úr sjóðnum sem slíkir. Þeir gætu verið sjóðfélagar og þá eiga þeir rétt til greiðslu úr sjóðnum sem sjóðfélagar en ekki sem launagreiðendur.

Hætti launþegi sem greiðir iðgjald til sjóðsins starfi hjá launagreiðanda rofnar allt samband launagreiðandans við sjóðinn vegna þessa sjóðfélaga. Launagreiðandinn hefur ekkert lengur með sjóðinn að gera. Sjóðfélaginn á áfram geymdan rétt til greiðslu úr sjóðnum ef hann verður öryrki eða gamall, og maki hans og börn eignast rétt til greiðslna úr sjóðnum ef hann fellur frá. Það eru sem sagt eingöngu sjóðfélagar, makar þeirra og börn sem eiga rétt úr Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda.

Til lúkningar skuldbindingum sjóðsins vegna þeirra réttinda sem sjóðfélaginn og nánustu aðstandendur hans eiga í sjóðnum á sjóðurinn miklar eignir í formi peninga, verðbréfa og fasteigna. Þessar eignir standa á móti þeim réttindum sem sjóðurinn hefur lofað framangreindum hópi sjóðfélaga og nánustu aðstandendum þeirra. Réttindi og skuldbindingar eiga að standast á samkvæmt 14. gr. laga um starfsemi lífeyrissjóða. Eignir sjóðsins eiga því að vera jafngildar réttindunum sem sjóðfélagar og nánustu aðstandendur þeirra eiga. Þeir hljóta því að eiga þessar eignir sem standa til tryggingar réttindum þeirra og þar með allan lífeyrissjóðinn, enda er vandséð hver annar eigi þessar eignir. Það kom ekki fram hér áðan hjá hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni hver eigi þessar eignir aðrir en sjóðfélagarnir.

Hrein eign Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda til greiðslu lífeyris nam 13,2 milljörðum kr. í árslok 1997 og um 6 þúsund sjóðfélagar greiddu iðgjald til sjóðsins 1997. Þarna er sem sagt ekki um neinar litlar upphæðir að ræða, 13,2 milljarða kr.

Rétt er að nefna að margt fólk hefur þá lífssýn að eignir séu betur geymdar í höndum einstaklinga en í höndum opinberra aðila eða aðila sem engra persónulegra hagsmuna hafi að gæta af eignunum. Í samræmi við þessa lífssýn er óeðlilegt að þetta mikla fé sé án formlegs eiganda og því er lagt til að sjóðfélagarnir verði formlega lýstir eigendur þessa fjár.

Herra forseti. Hver á að velja stjórn sjóðsins? Núna skipar fjmrh. sjö manna stjórn sjóðsins þannig: Tvo án tilnefningar, tvo samkvæmt tilnefningu Landssambands lífeyrissjóða, tvo samkvæmt tilnefningu Sambands almennra lífeyrissjóða og einn samkvæmt tilnefningu BSRB. Allir þessir aðilar eru án nokkurra tengsla við sjóðfélaga, eins og áður var rakið. Auk þess er ekki loku fyrir það skotið að þessir aðilar geti lent í beinni samkeppni við Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, sem þeir eiga þó að stýra, t.d. varðandi góð fjárfestingartækifæri. Ég get alveg séð fyrir mér að stjórnandi einhvers lífeyrissjóðs hafi uppgötvað gott tækifæri sem Söfnunarsjóðurinn hyggist líka nýta sér. Og þá lendir hann í hagsmunaárekstri. Hvor aðilinn fær að nýta sér þetta tækifæri til ávöxtunar?

Það gæti líka komið upp góð hugmynd frá framkvæmdastjórn Söfnunarsjóðsins um góð tækifæri, fjárfestingartækifæri, sem mundi svo leka út til samkeppnisaðila í gegnum stjórnaraðild þeirra að sjóðnum.

Þar sem sjóðfélagar eiga sjóðinn, eins og rökstutt var hér að framan og ég gat um áðan, og sjóðfélagar eiga afkomu sína í ellinni og ef þeir yrðu öryrkjar alfarið undir því hvernig til tekst með rekstur sjóðsins og ávöxtun fjármuna hans er mjög brýnt að þeir komi að vali stjórnar sjóðsins.

Herra forseti. Margir hafa þá lífssýn að fullveðja einstaklingar eigi og séu færir um að taka ákvarðanir um helstu mál sem þá varðar. Þær brtt. sem hér eru lagðar til taka mið af þessari trú á einstaklinginn. Vil ég benda hv. frsm. meiri hlutans sérstaklega á þetta, þar sem hann tilheyrir sama flokki og ég, sem leggur áherslu á gildi einstaklingsins og trú á einstaklinginn og að einstaklingurinn eigi að taka ákvarðanir um eigin málefni í eins ríkum mæli og hægt er.

Minni hluti nefndarinnar getur ekki tekið undir það sjónarmið meiri hlutans að skipan stjórnar skuli vera óbreytt frá því sem nú er. Hann telur til bóta að ráðherra ákvarði laun stjórnarinnar en ekki stjórnin sjálf, eins og meiri hlutinn bendir á, ef ekki verður fallist á að sjóðfélagar komi að stjórn og rekstri sjóðsins, þá munum við sem sagt samþykkja þá tillögu, annars er hún óþörf af því að sjóðfélagarnir taka sjálfir ákvarðanir um laun stjórnar, eins og gert er ráð fyrir í brtt. minni hlutans.

Minni hlutinn getur að öðru leyti tekið undir brtt. meiri hlutans sem koma fram í 2. og 3. tölulið í brtt. hans.