Svar við fyrirspurn

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 13:37:38 (1673)

1998-12-07 13:37:38# 123. lþ. 34.91 fundur 140#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[13:37]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Á þskj. 238 lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. fjmrh. um kostnaðarbreytingu ríkisfyrirtækja í hlutafélög. Þessari fyrirspurn var dreift í þinginu 5. nóvember eða fyrir rétt rúmum mánuði síðan. Þeir áskildu tíu virku dagar sem hæstv. ráðherrar hafa til að svara slíkum fyrirspurnum eru því fyrir löngu liðnir.

Ég geri þetta sérstaklega að umtalsefni hér vegna þess að fyrirspurn þessi lýtur að málefnum sem eru mjög til umfjöllunar í þjóðfélaginu þessa dagana. Hér á eftir mun hið háa Alþingi taka afstöðu til brtt. meiri hluta fjárln. í fjáraukalögum fyrir árið 1998 þar sem lagt er til að tæpar 50 millj. kr. renni til innlendra verðbréfafyrirtækja og banka sem stóðu að sölu í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Með öðrum orðum, það liggur ljóst fyrir að sala sem fram fór fyrir örfáum vikum er fyrirliggjandi, þ.e. tölur þar að lútandi. En í fyrirspurn minni var óskað eftir sambærilegum tölum fyrir yfirstandandi kjörtímabili og þar á meðal söluþóknun verðbréfafyrirtækja sem annast hafa sölu bréfa í ríkisfyrirtækjum sem ríkisstjórnin hefur einkavætt.

Ég krefst þess að þau svör liggi hér frammi. Þingmenn og þjóðin hafa fylgst með því hvers konar fár og farsi hefur verið í gangi í öllum þessum málum. Ekki einasta hafa þessir sömu bankar, verðbréfafyrirtæki sem hafa fengið fjármuni til að annast þessa sölu verið sjálf að kaupa þessi bréf, verið allt í kringum borðið heldur hefur markmið ríkisstjórnarinnar um dreifða eignaraðild algerlega misheppnast og augljóst að um undirverð er að ræða þegar sala þessara fyrirtækja er annars vegar. Þess vegna er svo brýnt eins og ég hef áréttað, virðulegi forseti, að þessi svör fáist ekki seinna en núna.