Fjáraukalög 1998

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 14:07:33 (1691)

1998-12-07 14:07:33# 123. lþ. 34.1 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv. 162/1998, GE (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[14:07]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir hefur gert grein fyrir afstöðu minni hlutans, en eins og fram kemur í áliti minni hluta liggja fyrir upplýsingar um 3,5 milljarða skekkju í fjárlagadæmi ríkisstjórnarinnar vegna ársins 1998. Ég verð, herra forseti, að gera grein fyrir því að ég tel vera ástæðu og rök til að ætla að halli ársins verði enn meiri eða á bilinu 7--9 milljarðar sem felst í eftirfarandi: Ofáætluðum virðisaukaskatti um 1 milljarð umfram það sem gerð er grein fyrir, vanáætluðum launahækkunum upp á 1--1,5 milljarða og vanáætluðum lífeyrisskuldbindingum upp á 1--2 milljarða. Þ.e. um er að ræða u.þ.b. 4 milljarða til viðbótar þeim upplýsingum sem minni hlutinn hefur nú þegar lagt fram gögn um.