Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 15:02:15 (1708)

1998-12-07 15:02:15# 123. lþ. 34.7 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[15:02]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil lesa stuttlega upp úr umsögn Lagastofnunar, með leyfi forseta:

,,Ef heildarmat á þessum ráðstöfunum öllum`` --- það eru ákveðnar ráðstafanir sem á að gera til að tryggja persónuvernd --- ,,leiðir til þeirrar niðurstöðu að persónugreining gagnanna teljist ekki með sanngirni raunhæfur möguleiki án verulegrar fyrirhafnar og mannafla, þá eru upplýsingarnar samkvæmt mælikvarða þjóðarréttar ópersónugreinanlegar. Eins og frumvarpið er sett fram og að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða sem að framan eru rakin um nánari útfærslu verklags- og vinnuferla teljum við þó að þjóðarréttur standi því ekki í vegi að löggjafinn geti metið það svo að upplýsingar í gagnagrunninum teljist ópersónugreinanlegar.``

Þetta þýðir að persónuverndin er trygg. Varðandi það sem kom fram í fyrra andsvari hv. ræðumanns um að sjúklingarnir ættu upplýsingarnar í sjúkraskrám, þá er það ekki svo. Við tókum á þessu í heilbrn. þegar við fjölluðum um frv. um réttindi sjúklinga. Sjúklingurinn á ekki sjúkraskrána, læknirinn á ekki sjúkraskrána, heilbrigðisstofnun á ekki sjúkraskrána. Hins vegar er hún í vörslu heilbrigðisstofnana og sjálfstætt starfandi lækna. Það á enginn beint upplýsingarnar í sjúkraskrá.