Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 15:12:44 (1717)

1998-12-07 15:12:44# 123. lþ. 34.7 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[15:12]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil benda á að t.d. Lagastofnun telur að ekkert sé því til fyrirstöðu að veita sérleyfi og við teljum að það verði að veita sérstakt leyfi vegna þess að það kostar alveg gífurlega fjármuni að setja upp þennan miðlæga gagnagrunn. Það er ljóst að heilbrigðisyfirvöld hafa ekki efni á að setja hann upp. Hann gæti kostað upp undir 20 milljarða. Það kostar nokkra milljarða að kaupa tölvurnar á hinum dreifðu stofnunum, einhverja milljarða að kaupa tölvurnar í hinum miðlæga gagnagrunni, en aðalkostnaðurinn felst í að slá inn allar upplýsingarnar, alveg gífurlegur kostnaður. Það er því okkar mat að verði ekki einhves konar vernd á þessum gagnagrunni, einhvers konar sérleyfi, þá er afar ólíklegt og nánast útilokað að hugsa sér að einhver fari í svona fjárfestingu af því að þá geti einhver annar bara komið og gert hið sama og væntanlega færi þá enginn út í slíka fjárfestingu. Þar sem við styðjum þá hugmynd að nýta miðlægan gagnagrunn til heilbrigðisþjónustu þá teljum við að það sé ekki hægt nema veita einhvers konar sérleyfi.