Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 15:14:03 (1718)

1998-12-07 15:14:03# 123. lþ. 34.7 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[15:14]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér var einmitt komið að kjarna málsins. Nú á að hverfa aftur til þess tíma þegar SÍS og aðrir sem vildu fjárfesta eða kaupa eitthvað fengu einhvers konar reglur frá ríkinu til að vernda þeirra eigin fjárfestingar.

Virðulegi forseti. Þetta eru engin rök. Þetta eru engin rök í málinu. Er þetta kannski ný stefna ríkisstjórnarinnar að heimilt sé að dúkka upp hjá hæstv. forsrh. og óska eftir ríkisvernd gagnvart einhverjum einstökum fjárfestingum? Þetta er algerlega nýtt, virðulegi forseti, og ég verð að segja alveg eins og er að það hefði ekki nokkur maður tekið það í mál ef Norðurál hefði óskað eftir einkarétti á framleiðslu á áli á Íslandi á þeim forsendum að dálítið mikið væri í lagt að ætla að fjárfesta í álveri. Þetta eru alveg fráleit rök, virðulegi forseti, og það er algerlega fráleitt að ríkisvaldið skuli taka upp á því núna í lok þessarar aldar að ríkisvernda fjárfestingar einstakra manna af því að þeir treysti sér ekki í fjárfestinguna að öðrum kosti.

Virðulegi forseti. Ef eitthvað er afturhvarf til fortíðar eða liðins tíma, sem ég hélt að við öll værum sammála um að ætti að vera að baki, þá er það þetta. Þetta er algerlega fráleitt og engin rök í málinu.