Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 15:34:22 (1734)

1998-12-07 15:34:22# 123. lþ. 34.7 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÖJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[15:34]

Ögmundur Jónasson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég kom hingað upp í og með til að vekja athygli á því að hér er ekki staddur þingflokkur sjálfstæðismanna. Við erum ekki stödd á þingflokksfundi sjálfstæðismanna. Og það eru engin rök í máli að bjóða Alþingi upp á málflutning af því tagi sem hæstv. heilbrrh. gerði, þ.e. að málinu hefði verið skotið til þingflokks sjálfstæðismanna. Það kemur okkur ekkert við. Við bíðum eftir því að frv. verði lagt fram í þinginu, að Alþingi fjalli um málið og taki afstöðu til þess. Krafan gengur út á þetta.

Ég vildi vekja athygli á því varðandi ummæli hæstv. forseta að þetta mál snýst ekki einvörðungu um formlegheit. Það snýst um vinnubrögð Alþingis og það snýst um siðferði. Ríkisstjórnin lofaði því að það mál sem hér er til umræðu, miðlægur gagnagrunnur á heilbrigðissviði, yrði ekki tekið til umfjöllunar og afgreiðslu fyrr en frv. um persónuvernd hefði komið fram. Ríkisstjórnin hefur nú gengið á bak orða sinna að þessu leyti. Það er óásættanlegt og um það snýst þessi umræða um fundarstjórn forseta. Við í stjórnarandstöðunni erum að leggja fram kröfu um að þessari umræðu verði frestað og þráðurinn ekki tekinn upp að nýju fyrr en frv. um persónuvernd hefur komið fram, það hlotið umfjöllun á Alþingi og afgreiðslu.