Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 17:41:40 (1745)

1998-12-07 17:41:40# 123. lþ. 34.7 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. 1. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[17:41]

Frsm. 1. minni hluta heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er skammt stórviðranna á milli. Það er annars vegar napur stormur frá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni en ljúfur sunnanblær frá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur.

Það sem ég hef verið að segja er í fyrsta lagi að ef hægt er að finna sátt um leiðina til þess að tryggja vísindamönnum aðgang sem ljóst er að stenst alþjóðlegar reglur, eins og vera kann að önnur þeirra leiða sem við förum geti tryggt, þá skiptir það miklu máli og ef það er hægt að falla frá einkaréttinum þá skiptir það líka verulega miklu máli. Þetta er það sem ég sagði í minni ræðu. Ég tel að ... (Gripið fram í.) Nei, en mig langar líka til að segja það vegna þess sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði áðan --- ég kaus að svara honum ekki málefnalega vegna þess að hann talaði ekki málefnalega til mín --- að ég get alveg viðurkennt að mig langaði til þess að styðja þetta mál í upphafi og ég leitaði leiða til þess en ég bara gat það ekki. Ég er gamall vísindamaður og ég hef starfað við svona rannsóknir og ég er algjörlega sannfærður um að ef ég væri 25 árum yngri og væri að koma heim frá námi núna, eins og ég gerði þá, þá hefði ég leitað eftir störfum þarna vegna þess að ég var að gera nákvæmlega þessa sömu hluti. Ég tel að þetta geti orðið merkilegt tæki en ég tel að það sé búið að klúðra þessu.

Þetta, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, er í rauninni það sem ég er að segja. Ef meiri hlutinn fellur frá einkaréttinum og ef hann tryggir aðgengi vísindamanna þá get ég stutt þetta mál.