Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 17:43:05 (1746)

1998-12-07 17:43:05# 123. lþ. 34.7 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[17:43]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég efast um að hægt verði að fallast á þessi skilyrði, þ.e. bæði aðgangsnefndina burt og líka að falla frá einkarétti. Ég held að það sé algjörlega óásættanlegt að falla frá einkarétti. En ég vil nota tækifærið og koma því á framfæri við hv. formann heilbr.- og trn., Össur Skarphéðinsson, að ég teldi það eðlilegt að við skoðuðum þessi mál sérstaklega á milli 2. og 3. umr. og þá er ég að vísa í aðgengisnefndina.

Ég vil líka koma því á framfæri að mér komu nokkuð á óvart orð hans um dulkóðunina á heilsufarsupplýsingum í gagnagrunninum vegna þess að þegar við tókum þá brtt. inn í heilbr.- og trn. var almenn samstaða um hana. Ekki var um það að ræða að neitt ætti að minnka persónuverndina heldur átti að nota þarna önnur atriði til úrbóta, aðgengishindranir og annað. Í gagnagrunninum átti að setja heilsufarsupplýsingarnar í nokkra litla grunna, mjög mikið eftirlit skyldi vera með hverjum þeirra og tölvunefnd hefði síðan eftirlit með þeim og tryggði að þarna væri persónuvernd tryggð og vernduð. Það kom mér því nokkuð á óvart hvað málin höfðu snúist í huga hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar þar sem mér fannst vera mikill einhugur um þetta þegar við tókum það út úr nefndinni á sínum tíma.