Sala hlutabréfa í bönkum

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 13:17:55 (1760)

1998-12-08 13:17:55# 123. lþ. 35.91 fundur 147#B sala hlutabréfa í bönkum# (umræður utan dagskrár), EOK
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[13:17]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Því hefur verið lýst yfir af ríkisstjórninni að það væri einlægur vilji hennar að ná sem mestri dreifingu að eignaraðild þegar hún væri að selja bankana. Ég vissi ekki betur en það væri sama skoðun sem stjórnarandstaðan hefði. Allir hafa verið sammála um það í þinginu að þannig skyldum við bera okkur að, reyna að hafa sem allra dreifðasta eignaraðild.

Hvað hefur ríkisstjórnin svo verið að gera? Hún hefur verið að gera það, nákvæmlega eins og vilji þingsins var, þ.e. að bjóða þetta út og gefa einstaklingum sem allra flestum kost á að eignast bankana. Þúsundir Íslendinga hafa tekið undir þetta, eru að kaupa hlutabréf. Ég vissi ekki annað en menn hefðu fagnað þessu mjög almennt.

Hins vegar hafa menn bent á að þessi kennitölukaup bankanna, þ.e. búa til eftirmarkaðinn áður, væru hálfkjánaleg. Það kann vel að vera. Eins og hæstv. ráðherra sagði kann vel að vera að það verði að endurskoða þetta eitthvað hvernig við komum þessum hlutabréfum í sem dreifðasta eign. Kannski þarf að endurskoða það.

En ég spyr: Vill hv. fyrirspyrjandi banna eftirmarkað á hlutabréfum? Hvernig ætla menn að banna eftirmarkað á hlutabréfum yfirleitt? Hvernig ætla menn að koma í veg fyrir það að menn kaupi og selji hlutabréf eins og þeir vilja? Við getum skorað á almenning að kaupa hlutabréfin og selja þau ekki. Ég held að það væri ágætt að skora á almenning að gera það, menn kaupi bara sjálfir og eigi bréfin. Það væri mjög gott. Ég held að þá værum við að ná þeim árangri sem við trúðum og treystum að við gætum náð. Það er það einasta sem við getum gert.

Við erum einu sinni á þessu ártali 1998. Við erum einu sinni hluti af Evrópu. Við erum einu sinni hluti af hinum vestræna heimi. Fyrirspyrjandi má því ekki láta sig dreyma um það að aðrir tímar séu væntanlegir.