Sala hlutabréfa í bönkum

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 13:23:50 (1763)

1998-12-08 13:23:50# 123. lþ. 35.91 fundur 147#B sala hlutabréfa í bönkum# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[13:23]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér fer fram undarleg umræða. Kjarni hennar er sá að ríkisstjórn Íslands hefur markað þá stefnu að gefa almenningi þessa lands kost á að eignast hlut í almennum fyrirtækjum ríkisins. Tal nokkurra hv. stjórnarandstæðinga um að þetta hafi mistekist, tal um einkavinavæðingu er algerlega út í hött.

Markmið útboðsins er að tryggja dreifða eignaraðild, dreifa eignaraðildinni í marga staði í stað þess að semja við einn stóran og öflugan aðila. Þetta er dreifð eignaraðild, þetta er að gefa almenningi kost á að eignast hlut í fyrirtækjum. Til viðbótar bætist svo sá kostur sem boðinn er starfsfólki bankans alveg sérstaklega og er fyllilega réttlátur og eðlilegur.

Viðbrögð einstakra samkeppnisaðila eru svo allt annar handleggur. Nú er sú aðferð kunn erlendis að fjármálafyrirtæki bjóða einstaklingum að kaupa hlut þeirra í fyrirtækjum. Við stöndum hins vegar frammi fyrir því að spyrja hvort við viljum hafa afskipti af ráðstöfun einstaklinga á hlut sínum í bankanum. Viljum við setja skorður á ráðstöfunarrétt almennings með hlutbréf sín eða rétt sinn til að geta keypt hlut í ríkisfyrirtækjum?

Nú kann það að vera réttlætanlegt í einhverjum tilvikum til þess að tryggja meginmarkmiðið um dreifða eignaraðild. Í því skyni kann sú leið að vera réttlætanleg sem viðruð hefur verið að binda eignaraðildina til tveggja eða þriggja ára. En málið er auðvitað alls ekki einfalt. Aðalatriðið tel ég vera þau markmið sem ráðherra hefur kynnt, þ.e. að dreifa eignaraðild hlutabréfa bankans til almennings. Spurningin verður svo sú hvort við ætlum að afnema þennan ráðstöfunarrétt almennings eða setja frekari skorður.