Sala hlutabréfa í bönkum

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 13:32:27 (1767)

1998-12-08 13:32:27# 123. lþ. 35.91 fundur 147#B sala hlutabréfa í bönkum# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[13:32]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Af málflutningi stjórnarandstæðinga, sérstaklega hv. framsögumanns, mætti halda að hér væri komið upp í þjóðfélaginu eitthvert nýtt stórkostlegt þjóðfélagslegt böl. Og hvaða böl er það? Jú, það er að þúsundir ef ekki tugþúsundir Íslendinga eiga þess nú kost að fjárfesta í Búnaðarbanka Íslands hf. og geta jafnvel hugsanlega grætt eitthvað pínulítið á því, haft eitthvað upp úr því. Þetta er bölið. Ja, þvílíkt, að þurfa að hlusta á slíkan málflutning hér árið 1998.

Þessi málflutningur er til marks um algert skilningsleysi á frjálsum viðskiptum og fyrirlitningu á frjálsum viðskiptum. Það sem mun gerast hér er að einhverjir aðilar geta í mesta lagi eignast örfá prósent í Búnaðarbankanum. Það er verið að selja 10% í þessu hlutafélagi. Og margir keppast um þetta, að ná sér í einhvern hlut. Auðvitað munu þúsundir manna ekki selja eða framselja sinn hlut þannig að það er ekkert um það að tala að einhver einn aðili, einhver einn kolkrabbi, einhver einn Landsbanki eða einhverjir tilbúnir aðilar, hugarfóstur hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, komi sér upp einokunarhlut í Búnaðarbankanum. (SJS: Hver á Landsbankann?) Þannig er nú þetta.

Þess vegna er þetta allt saman til marks um það að stjórnarandstaðan --- þeir sem flissa og hlæja úti í sal --- getur bara ekki hugsað sér að koma þessum eignarhlutum ríkisins úr klónum á ríkinu yfir í hendurnar á almenningi. (Gripið fram í.) Það er það sem er að gerast hér. Það mætti kalla þetta vaxtarverki þessa kerfis þegar verið er að brjótast út úr eignarhaldi ríkisins og koma eignarhaldinu yfir í hendur almennings, eins og það á auðvitað að vera og er alls staðar í nálægum löndum. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÓE): Hljóð í salnum.)

Svona tala þeir sem hafa fyrirlitningu á frjálsum viðskiptum.

Ég vil að endingu, herra forseti, mótmæla ummælum hv. þm. Ögmundar Jónassonar hér um söluna á SR-mjöli og þeim útúrsnúningum á því svari sem ég hef gefið um það mál. Ég hef leiðrétt það mál á öðrum vettvangi og það mun verða ítrekað í viðbótarsvari í þinginu. Þessir útúrsnúningar eru engum til framdráttar og engum til gagns í vitlegri umræðu um þessi mál.