Svör ráðherra í utandagskrárumræðu

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 13:40:33 (1770)

1998-12-08 13:40:33# 123. lþ. 35.94 fundur 150#B svör ráðherra í utandagskrárumræðu# (um fundarstjórn), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[13:40]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Mér finnst alveg ástæða til þess að upplýsa hæstv. forseta um það að í gærkvöldi voru hæstv. ráðherra sendar fjórar fyrirspurnir til þess að hann hefði tíma til að svara þeim í þessari umræðu og hefði ráðrúm til þess. Mikilvægustu spurningunni lætur ráðherrann ósvarað. Ég hélt að þessi utandagskrárumræða væri til þess að ráðherrann svaraði þeim spuningum sem fyrir hann eru lagðar.

Þetta var spurning um það hvort ráðherrann mundi beita sér fyrir því, í tilefni frv. sem liggur fyrir þinginu og kemur fljótlega inn í þingsali, að sett yrði hámarkseignaraðild á hlutabréfin sem nú á að fara að selja í Fjárfestingarbankanum.

Ég vek athygli á því að það þjónar engum tilgangi, herra forseti, og ég man það í framhaldinu næst þegar ég bið um utandagskrárumræðu tengda viðskrh., að senda honum fyrirspurnir fyrir fram. Þessu vildi ég koma á framfæri við hæstv. forseta. (SJS: Nóg að senda honum svörin.)