Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 14:34:46 (1778)

1998-12-08 14:34:46# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[14:34]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Ég hneigist að því að meta það svo að ég hafi til að bera í þessu máli svona álíka mikla meðalgreind og hv. formaður heilbr.- og trn. taldi (Gripið fram í: Slaka.) sér til ágætis. Hann sagði meira að segja slaka meðalgreind, sem mér finnst nú vera óvenjumikið lítillæti af hans hálfu og kannski meira fyrir eyrað en raunveruleikann.

Það sem ég leyfði mér að gera í ræðu minni var að benda á hversu fáránlegt það væri að tala um fjárfestingu í heilbrigðiskerfinu í samanburði við fjárfestingu í álfyrirtæki og það er fáránlegt, hv. þm., því er ekki hægt að neita. Ég held það væri rétt að þingmaðurinn hugleiddi við hvaða aðstæður sérleyfishafinn kemur til með að fjárfesta í því verkefni sem hér er um að ræða.

Ég sé að ljósið er þegar farið að blikka á mig og ég er reiðubúinn til þess í lokaathugasemd minni að koma inn á það hve aðstæður eru ólíkar í sambandi við áliðnaðinn annars vegar og fjárfestingu í miðlægum gagnagrunni hins vegar.