Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 14:35:59 (1779)

1998-12-08 14:35:59# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[14:35]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki bætti þetta málstað hv. þm. Ég vil nefna það sérstaklega að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir viðurkenndi í andsvari í gær og sagði sem svo að það að fjárfesta fyrir 20 milljarða væri mikil áhætta og að nauðsynlegt væri að þeir sem það ætluðu að gera fengu einhverja ríkisvernd. En hún var ekki með útúrsnúninga af þeim toga sem hv. formaður utanrmn. viðhefur og leyfir sér meira að segja að bera á torg í þessari umræðu.

Ég get tekið undir það með hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur þegar hún segir að hann sé nánast að gera einstaklinga tortryggilega þegar farið er að nefna það í þessari umræðu að dómarar Hæstaréttar séu breyskir, að einhverjir einstakir sérfræðingar séu breyskir. Ég er eiginlega þeirrar skoðunar eftir að hafa hlýtt á hv. þm. í þó nokkra stund að líklega sé hann breyskastur af þeim öllum.