Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 14:36:58 (1780)

1998-12-08 14:36:58# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[14:36]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Ég vil leiða hjá mér þessar upplýsingar eða umræður um breyskleika, aðeins geta þess að við erum víst allir breyskir. Hv. þm. deilir kjörum og örlögum með okkur öllum í því. Ég vil hins vegar taka sérstaklega fram að menn eiga að hugleiða það við hvaða aðstæður verður fjárfest í þessum gagnagrunni, hvort það er sambærilegt við atvinnulíf eins og t.d. áliðnað. Hvernig er ætlast til þess að í þetta verði ráðist? (LB: Á að fara að skilgreina ...?) Það þarf fyrst að vinna að undirbúningi málsins, ná samkomulagi um hvaða upplýsingar ganga inn í grunninn. Það þarf að fjármagna stóra pósta í þessu máli, bæði þróunarvinnu, hugbúnaðarvinnu og aðra hluti áður en ljóst er hvort þessi gagnagrunnur skili nokkrum tekjum. Þetta eru óvenjulegar aðstæður og ég býst við að eftir því (Gripið fram í.) sem hv. þm., sem nú kallar fram í og getur ekki látið sér nægja ræðutíma sinn hér, hugleiðir þetta betur þá muni hann komast að þeirri niðurstöðu að samanburður hans er ekki réttmætur.