Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 14:38:09 (1781)

1998-12-08 14:38:09# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[14:38]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var fróðlegt að heyra síðustu ræðu sem hv. þm. flutti um málið. Ég sé að mikið verk fyrir höndum því hv. þm. er nú kominn að þeirri niðurstöðu að það þurfi að fara vandlega yfir ýmis atriði málsins frekar, eða eins og hann orðaði það: ,,Málið er mjög flókið og er enn á vinnslustigi.`` Það er fróðlegt að þetta skuli koma fram við 2. umr. málsins. Hv. þm. vék að því að ég hefði veist að mér skilst ósæmilega að virtum sérfræðingum. Ég tók eftir því þar sem ég hlýddi á mál hv. þm. Þessari staðhæfingu vil ég andmæla harðlega. Það sem fram kom í máli mínu í gær skal ég hafa yfir hér efnislega, að menn mega ekki blanda saman stofnunum Háskóla Íslands, svonefndum stofnunum sem kenndar eru við Háskóla Íslands og Háskóla Íslands og deildum hans. Það er mikil ástæða til þess, virðulegur forseti, að á þessu máli verði tekið (Forseti hringir.) því það ruglar auðvitað almenning í ríminu þegar verið er að kenna álitsgerðir við Háskóla Íslands sem hafði ekkert með þær að gera nema það að mennirnir sem veita svör og taka eftir atvikum greiðslu fyrir eru starfsmenn Háskóla Íslands.