Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 14:42:29 (1784)

1998-12-08 14:42:29# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[14:42]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Nú versnar aftur í málinu vegna þess að nú upplýsist það að ekki skiptir aðeins máli hvernig málið er lagt fyrir heldur hver spyr. Auðvitað skiptir meginmáli hvernig málið er lagt fyrir, þ.e. hvernig spurningarnar eru orðaðar. Ef það skiptir hins vegar máli hver spyr þá er þar með verið að gefa í skyn að það geti haft efnisleg áhrif á svarið hver spyr og því atriði var ég að mótmæla hér. Og ég þykist vita það ... (HG: Hefur það ekki áhrif hver ber fram spurningar ...?) Hv. þm., það er ræðutími á eftir sem hann getur nýtt fyrir sjálfan sig í þeim efnum. En ég vil sérstaklega taka fram að fyrir heiðarlegan fræðimann skiptir aldrei máli hver spyr spurningarinnar (HG: Og um hvað er spurt.) heldur skiptir mestu máli um hvað er spurt. (Gripið fram í: Og hver borgar.) Í athugasemd þingmannsins kom ekki fram ein einasta athugasemd við það hvernig spurningarnar hefðu verið orðaðar heldur hver hefði spurt þeirra. Það er einmitt þetta atriði sem ég gerði athugasemd við og ég held að hv. þm. eigi að velta því fyrir sér í einrúmi hvort ekki sé nokkuð vafasöm fullyrðing hans hér að velta því upp í sambandi við þessa þrjá fræðimenn hvort það skipti máli hver spyrji spurninganna.