Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 14:43:48 (1785)

1998-12-08 14:43:48# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. 1. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[14:43]

Frsm. 1. minni hluta heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég sætti mig fyllilega við greindarstig hv. þm. Tómasar Inga Olrichs en ég geri athugasemdir við heyrn hans. Það er ekki rétt að ég hafi haldið því hér fram eftir Erni Snorrasyni að Íslensk erfðagreining hafi undir höndum erfðaupplýsingar um 70 þús. Íslendinga heldur sagði ég að þeir hefðu leyfi fyrir slíkum rannsóknum með upplýstu samþykki 70 þús. Íslendinga, en þeir hefðu hins vegar þegar í höndum sýni úr 10 þús. Íslendingum.

Herra forseti. Það sem vakti athygli í ræðu hv. þm. er málabúnaður hans varðandi stig frv. Hv. þm. heldur því fram að frv. sé einungis á vinnslustigi og það þurfi að vinna það betur á milli 2. og 3. umr. Hvað er það sem hv. þm. vill gera? Jú, það kom fram í ræðu hans. Hann vill að við förum betur í það hvernig á að meðhöndla erfðaupplýsingar. Það liggur alveg klárlega fyrir samkvæmt frv., eins og hann las sjálfur upp úr greinargerð á bls. 20, að í þennan gagnagrunn á ekkert að fara nema upplýsingar sem eru í sjúkraskrám. Af því leiðir að engar erfðaupplýsingar fara í gagnagrunninn nema þær sem er að finna í sjúkraskrám. En það kemur fram að hv. þm. vill breyta frv. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hóf máls á þessu í gær og það er alveg ljóst að á milli umræðna ætlar meiri hlutinn fyrir þrýsting frá Íslenskri erfðagreiningu að gjörbreyta meginatriðum frv. Það er óheiðarlegt gagnvart þeirri umræðu sem farið hefur fram (Forseti hringir.) í þjóðfélaginu vegna að hún hefur ekki verið á þeim grundvelli.