Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 14:47:34 (1788)

1998-12-08 14:47:34# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[14:47]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson er mikill skylmingamaður og honum færist stundum mikið kapp í kinn. Ég hefði viljað hvetja hann til þess að skoða vel og af mikilli athygli hvað það þýðir ef talað er um að einungis erfðafræðilegar upplýsingar úr sjúkraskrám færu inn í þetta. Þá má einnig geta þess að hér er ekki um að ræða neitt fikt. Það ber að lesa ýmiss konar fylgigögn með þessu. Ég nefni sérstaklega Stika ehf. (Gripið fram í.) og sá ágæti þingmaður sem hér kallar fram í fyrir mér hefur vitnað mjög mikið í Stika til að komast að þeirri niðurstöðu hversu þeir hafi góðan skilning á þessu máli en þeir leggja einmitt þann skilning í þetta að erfðafræðilegar upplýsingar gangi þarna inn.

Það gera einnig sérfræðingar Lagastofnunar. Þeir gera líka ráð fyrir því að inn fari erfðafræðilegar upplýsingar. Það stendur beinlínis í þessum gögnum. Því þarf að skoða milli 2. og 3. umr. hvort sá skilningur, sem hv. þm. hefur fulla heimild til að hafa á því ákvæði 7. gr., þrengi lagarammann með þeim hætti sem hann telur eða hvort hægt sé að leggja annan skilning í þetta. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að hægt sé að leggja miklu víðtækari skilning í þetta og það beri að leggja þann skilning í frv.