Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 17:04:56 (1792)

1998-12-08 17:04:56# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[17:04]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvað hefur komið hæstv. ráðherra úr jafnvægi, nema það hafi verið þær efnislegu ábendingar sem ég kom fram með í ítarlegri ræðu minni um að hún sé á rangri leið. Ég ítrekaði það margsinnis að sá einstaklingur sem hér um ræðir væri vænsti maður, hinn prúðasti og góður drengur. Ég vakti einfaldlega athygli á því að hann er að senda út póst og hafa sjónarmið uppi um gagnagrunnsmálið sem varð til í þessu sama ráðuneyti fyrr í vor. Er það rangt að þannig hafi verið í pottinn búið? Eru einhverjar aðdróttanir fólgnar í því að lýsa veruleikanum? Ég spyr, virðulegi forseti, og bið hæstv. ráðherra að svara því. Er það orðið tabú í þingsal þegar menn lýsa veruleikanum þótt hann kunni að vera erfiður og sár einstökum hæstv. ráðherrum?

Það verður þá bara svo að vera. Þeir verða að lifa við þann veruleika sem við blasir eins og við hin. Þannig er það bara í lífinu.