Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 17:07:57 (1794)

1998-12-08 17:07:57# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[17:07]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Mér hefur ekki verið það ljóst, virðulegi forseti, að hagsmunir heilbrigðisþjónustunnar stæðu og féllu með því hvort að um sérleyfi væri að ræða ekki. Ég held þvert á móti að hagsmununum sé betur til haga haldið með dreifðum gagnagrunnum og án sérleyfis eins og ég legg til.

Ég neita því og vísa því algjörlega frá að hér séu einhverjar aðdróttanir á ferðinni gagnvart Kristjáni Erlendssyni. Ég sagði það margoft áðan að hann hefur auðvitað fullan rétt til þess að lýsa viðhorfum sínum. Hann er kominn í vinnu annars staðar. Ég vakti einfaldlega athygli á þeim veruleika sem við okkur blasir að hann og raunar margir aðrir eru farnir að tala eins og þeir stýri þessari umræðu á hinu háa Alþingi og hafi sérstakt aðgengi. Ég lýsti því áðan líka, og endurtek það, með fullri virðingu fyrir sjónarmiðum þessa fólks. Það er ekki þetta fólk sem ég er að gagnrýna. Ég er að gagnrýna þá hv. alþingismenn sem láta það viðgangast að fyrirtæki sem hefur áskrift að einhverju sérleyfi og einstaklingar, starfsmenn þessa fyrirtækis, séu að skýrgreina frumvarp og hvernig úr einhverjum álitamálum verði leyst þegar alþingismenn eru í miðju kafi að ræða það. Á þessu vakti ég athygli og einnig hinu sem er bara veruleiki lífsins og ekki mér að kenna. Ég get lítið að því gert, virðulegi forseti, þó að einhverjir einstaklingar hafi verið í vinnu þarna eða hérna. Ég er bara að lýsa því hvernig þetta er. Og mikið skil ég það ósköp vel að hæstv. ráðherra sé trekkt og illa haldin við þessa umræðu. Það mætti mikið vera ef hún væri það ekki.

Ég vil hins vegar rifja það upp á nýjan leik, af því að ég svaraði því áðan, að auðvitað mælti ég fyrir mínu frv. Ég fór bara ekki að leikreglum hæstv. ráðherra í því. Ég gerði það undir umræðunni um hennar frv. til að gera það alveg ljóst hvaða kostir bjóðast í þessu máli, til að gera það alveg ljóst að betri leiðir bjóðast á hinu háa Alþingi í þessu gagnagrunnsmáli öllu.