Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 17:31:18 (1799)

1998-12-08 17:31:18# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[17:31]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einkum einkaleyfið sem hv. þm. Einar Oddur ræddi um áðan og taldi að einkaleyfið væri ekki lögum samkvæmt. Við getum auðvitað deilt um það en heilbrrn. er sammála Lagastofnun Háskólans um það efni að einkaleyfið sé rétt að veita að uppfylltum vissum skilyrðum og þau skilyrði eru uppfyllt í frv. að okkar mati. En við getum verið sammála um að vera ósammála um þetta atriði.

Varðandi annað sem kom fram í máli hv. þm. þá talaði hann um að þetta yrði nýtt sem stýritæki í heilbrigðisþjónustunni. Það hef ég aldrei sagt. Ég tel fyrst og fremst að um nýja þekkingu sé að ræða, að með gagnagrunninum séum við að fá nýja þekkingu hvað varðar læknavísindi og það skipti meginmáli um gagnagrunninn sem slíkan.

En varðandi önnur atriði sem hv. þm. kom inn á og talaði um að hann teldi að of mikið væri veitt til heilbrigðismála í dag og við þyrftum að minnka það fjármagn og færa yfir til menntamála eftir því sem ég skildi hann og taldi að stjórnunin á heilbrigðismálunum hefði í áraraðir verið slök, þá langar mig að spyrja hv. þm.: Er hann ekki ánægður með heilbrigðisþjónustuna á Íslandi? Telur hann að hún sé betri annars staðar í heiminum? Til hvaða landa lítur hann þegar hann telur að hægt sé að stýra henni betur hér?