Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 17:39:34 (1803)

1998-12-08 17:39:34# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[17:39]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Þetta er búin að vera mjög gagnleg umræða, bæði umræðan í dag og í gær og ég get tekið undir orð hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar þar sem hann sagði í lok málsins áðan að hann óttaðist að gagnagrunnurinn yrði ekki að miklu gagni, a.m.k. ekki meðan hann er í því uppnámi sem hann virðist vera í eftir þessa umræðu. Það er alveg ljóst að þetta mál verður að fara aftur til nefndar eftir 2. umr., það er alveg ljóst eftir þá umræðu sem hefur farið fram og þær upplýsingar sem fram hafa komið.

Það verður eiginlega að segja að þetta mál sé í uppnámi. Eins og kom fram í ítarlegu minnihlutaáliti okkar jafnaðarmanna í heilbr.- og trn., í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, þar sem hann mælti fyrir þessu minnihlutaáliti okkar í gær, höfum við ýmislegt við þetta mál að athuga en við höfum stutt og styðjum margar af þeim brtt. sem koma frá meiri hlutanum. Í því áliti kemur mjög greinilega fram að einkarétturinn eða einkaleyfið virðist ekki geta staðist og gerði hv. þm. vel grein fyrir því í máli sínu í gær og kemur það einnig fram í nál. okkar að einkarétturinn stangast á við EES-samninginn, a.m.k. í fjórum atriðum.

Einnig hefur verið bent á það að einkaleyfið virðist einnig stangast á við stjórnarskrána miðað við dóm Hæstaréttar sem nýfallinn er í kvótamálinu eða vegna laga um stjórn fiskveiða. Benti hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir vel á það í máli sínu að einkaleyfið stangist á við bæði greinina um atvinnufrelsi sem tryggt er í stjórnarskránni og brjóti einnig jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Full ástæða er til þess að þessir þættir verði skoðaðir mjög ítarlega áður en þetta frv. verður að lögum.

Ég verð að segja að ég er búin að sitja yfir umræðunni allan tímann frá því að hún hófst í gær og ég undrast að enginn af fulltrúum í heilbr.- og trn. af stjórnarliðinu skuli vera á mælendaskrá nema hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir, sem er með fyrirvara við málið, þ.e. auk hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur sem ber umræðuna nánast uppi af hálfu stjórnarliðsins. (Gripið fram í.) Ég er ekki að gera lítið úr málflutningi þeirra þingmanna annarra sem talað hafa en bara vegna þess hve mikil vinna hefur verið lögð í þetta mál í hv. heilbr.- og trn., en þetta hefur nánast verið eina verkefni nefndarinnar frá því að þing kom saman í haust. Nefndin hafði einnig unnið málið allítarlega í vor þegar átti að keyra það í gegnum nefndina. Eins og menn þekkja hefur málið verið í mikilli vinnslu, bæði hjá nefndinni í vor, hjá ráðuneytinu í sumar og síðan aftur hjá nefndinni núna á fyrri hluta þings. Ég verð að segja að eftir því sem við skoðuðum málið meira komu fleiri álitaefni upp. Oft hefur verið talað um að þingmenn með slaka meðalgreind eigi fullt í fangi með að skilja ýmislegt af þessu. Ég verð að segja að ég veit ekki hvar ég flokkast í þeim efnum en oft átti ég vissulega fullt í fangi með að skilja ýmsa þætti en þó taldi ég að við værum öll með sama skilning á málinu þegar málið var afgreitt úr nefndinni fyrir helgi. Þó hefur komið í ljós núna í umræðunni að svo er ekki. Það sýnir fram á hversu nauðsynlegt er að málið komi til nefndarinnar aftur og verði lagfært þar.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði áðan að menn yrðu að gera sér grein fyrir því að málið yrði afgreitt svona eins og það er núna, en ég ætla að vona að svo verði ekki. Ég tel það skyldu okkar, sem höfum ákveðnar efasemdir um vissa þætti málsins, það er skylda okkar að reyna að koma fram breytingum á þeim efnisþáttum því að auðvitað getum við ekki afgreitt málið svona eins og það er í dag. Það hefur þessi umræða sýnt. Það hefur umræðan í gær og í dag sýnt að það er ekki hægt. Við verðum að fara nánar yfir málið í nefndinni.

[17:45]

Það eru einnig önnur rök sem kalla á það, þ.e. hvernig afstaða til málsins er í samfélaginu, sérstaklega í vísindasamfélaginu. Og að fá á fimmta tug bréfa frá heilsugæslulæknum sem lýsa því yfir að þeir muni ekki setja upplýsingar um sjúklinga inn í gagnagrunninn nema fá skriflega beiðni frá hverjum sjúklingi um að svo verði gert, það vekur ákveðnar áhyggjur um að þessi gagnagrunnur muni ekki virka sem skyldi, muni ekki verða það verkfæri sem þeir sem til hans stofnuðu eða sömdu þetta frv. ætluðust til. Ég fagnaði því mjög þegar málið hafði fengið ítarlega umfjöllun í sumar, og að það skyldi ekki hafa verið keyrt í gegnum þingið í vor og taldi að það væri áfangi á þeirri leið að ná meiri sátt um málið í samfélaginu en svo er því miður ekki. Það er alls ekki sátt um málið eins og það er afgreitt úr nefndinni, því miður.

Þetta er mjög flókið mál, það er alveg rétt sem fram hefur komið í umræðunni. Þetta er mjög flókið mál og ég leyfi mér að efast um að þingmenn almennt, þ.e. þeir þingmenn sem ekki eiga sæti í heilbr.- og trn. og þeir þingmenn sem hafa virkilega kafað ofan í málið, geri sér grein fyrir því hvernig þetta mál er vaxið. Það tók okkur í heilbr.- og trn. langan tíma að setja okkur ofan í hina ýmsu þætti málsins. Þrátt fyrir þá vönduðu umræðu og vinnu sem fór fram í nefndinni þá kemur það í ljós hér að menn skildu ýmis atriði frv. ekki á sama hátt þegar það var afgreitt. Ég vil sem sagt ítreka að frv. má alls ekki fara í gegnum þingið eins og það er, það verður að taka á ýmsum þáttum.

Ég spurði í andsvari við hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, varaformann heilbr.- og trn., um eitt atriði sem hefur truflað mig nokkuð og það er um ráðstöfunarrétt sjúklinga á heilsufarsupplýsingum. Á föstudaginn var birtist grein í Morgunblaðinu, sem ég tel að að menn ættu að lesa, eftir Boga Andersen sem er sérfræðingur í sameindaerfðafræði og lyflæknisfræði við læknadeild Kaliforníuháskóla í San Diego, og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson minntist einmitt á. Bogi Andersen telur að einkaréttur Íslenskrar erfðagreiningar eða rekstrarleyfishafans muni skerða rétt sjúklinga. Þar sem ég var í stuttu andsvari í gær við hv. þm. Siv Friðleifsdóttur þegar hún mælti fyrir nál. meiri hlutans langar mig til að grípa aðeins niður í grein Boga og fá svör frá hv. þm. og afstöðu hennar til þeirra niðurstaðna sem hann kemst að í greininni því ég tel það mjög mikilvægt að það komi fram í umræðunni að við séum ekki að skerða réttindi sjúklinga að aðgangi að heilsufarsupplýsingum sínum með þessu frv. Við megum ekki skerða þann rétt bara vegna þess að við erum að halda utan um einkarétt hjá rekstrarleyfishafanum. Mig langar til, með leyfi forseta, að lesa klausu úr grein Boga föstudaginn 4. desember sl. Hann er að tala um rannsóknir og uppbyggingu gagnagrunna:

,,Tökum sem dæmi að alþjóðleg sjúklingasamtök vilji byggja upp gagnagrunna til að stuðla að lausn ákveðins sjúkdóms og ákvarða erfðaþætti sem ráða virkni og fylgikvillum lyfjameðferðar. Til þess að auka líkurnar á að hæfustu vísindamenn á sviðinu ynnu að verkefninu þá myndu þessi samtök stuðla að því að rannsóknarhópar bæði innan akademískra stofnana og líftæknifyrirtækja hefðu frjálsan aðgang að gögnunum. Greinilega væri hér starfsemi sem ógnaði viðskiptahagsmunum rekstrarleyfishafa á miðlægum gagnagrunni því upplýsingum sem Íslensk erfðagreining gæti annars selt væri dreift ókeypis. En frá sjónarmiði sjúklinga væri gagnagrunnur alþjóðlegu samtakanna mjög hentugur því hann myndi koma upplýsingunum um allan heim til hæfustu vísindamanna á viðkomandi sviði.

Ef viðkomandi sjúkdómur eða sjúkdómaflokkur væri viðfangsefni Íslenskrar erfðagreiningar, þá gætu áætlanir íslenskra stjórnvalda staðið í vegi fyrir rétti íslenskra sjúklinga til að taka þátt í slíkri rannsókn, jafnvel þótt hún væri besti möguleiki sjúklinganna að fá lausn á sjúkdómi sínum. Ástæðan er sú að margir íslenskir læknar hafa gert samning um samvinnu við Íslenska erfðagreiningu og samkvæmt gögnum frá Íslenskri erfðagreiningu (A nonconfidential corporate summary, 07/06/98) samþykkja samstarfslæknarnir með þessum samningum að eiga ekki samvinnu við önnur fyrirtæki um sama sjúklingahópinn. Eins og í öðrum viðskiptasamningum fær samstarfslæknirinn væntanlega borgun fyrir hollustu sína og fyrirtækið kemur í veg fyrir að læknirinn selji sama efnivið til samkeppnisaðila. Slíkur læknir getur því neitað að leggja rannsóknargögn sín um sjúklinginn til fyrirtækis sem er í samkeppni við Íslenska erfðagreiningu um gerð gagnagrunns. Og sjúklingarnir gætu heldur ekki leitað til heilbrigðisstofnana um að fá gögn sín, því eins og útskýrt er í svari Ragnheiðar Haraldsdóttur [skrifstofustjóra í heilbrrn.], þá munu stofnanirnar gera sérsamning við starfsleyfishafa um aðgang að heilsufarsupplýsingum. Með öðrum orðum þá eru afleiðingar einkaréttar Íslenskrar erfðagreiningar að sjúklingar eru sviptir ráðstöfunarrétti eigin heilsufarsupplýsinga og hann afhentur læknum og stjórnum heilbrigðisstofnana.``

Þetta er nokkuð sem ekki má gerast með lögum og það verður að koma fram í umræðunum að svo sé ekki, því auðvitað verður þessi umræða notuð sem lögskýringargagn þegar þetta frv. verður að lögum, og það er mjög mikilvægt að þarna sé ekki verið að skerða rétt sjúklinga, þ.e. aðgang þeirra að sínum eigin heilsufarsupplýsingum. Það er mjög mikilvægt. Við hv. þm. Össur Skarphéðinsson höfum gagnrýnt einkaréttinn réttilega og rakti hann það mjög ítarlega í máli sínu í gær. Ég hafði nú ekki hugsað mér að fara að endurtaka allt það sem þar kom fram, en hefði talið ástæðu til að það yrði skilgreint nánar þegar málið kemur til nefndarinnar aftur, sem ég geri ráð fyrir að það geri, hvað felist í þessum sérsamningum við fyrirtækið um aðgang að heilsufarsupplýsingum, að það sé alveg ljóst. Ég held einnig að skýra og skilgreina þurfi nánar einkaréttinn vegna þess að eftir því sem ég skil umræðuna verður ekkert fallið frá þeim rétti þó svo ég telji að búast megi við að hann standist ekki þegar farið verður að kæra þennan einkarétt, sem ég býst fastlega við að verði gert og það hefur reyndar komið fram í umræðunni að muni verða gert.

Það er alveg ljóst að þetta mál er enn mjög vanbúið til að verða að lögum. Eins og kom fram í máli hv. þm. Tómasar Inga Olrichs sem hélt hér langa tölu um gagnagrunninn og hefur reyndar fylgst aðeins með umræðum í nefndinni þar og tekið þátt í þeim, þá er málið á vinnslustigi til síðasta dags og ég sé það á þessari umræðu að nefndin á mikið verk fyrir höndum því það er greinilega ýmislegt sem á eftir að vinna. Ég tel það líka alvarlegt ef stjórnarliðar ætla að fara að breyta hugmyndinni um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði þannig að gert verði ráð fyrir að erfðafræðiupplýsingarnar fari inn í grunninn án þess að þær komi úr sjúkraskrám eins og sameiginlegur skilningur nefndarinnar var í umfjölluninni um málið í nefndinni. Það var tekið þar til umræðu og það var sameiginlegur skilningur okkar þá að í þennan grunn færu ekki aðrar erfðafræðilegar upplýsingar en þær sem kæmu úr sjúkraskrám. Nú virðist annað upp á teningnum og ég tel að það sé líka mál sem við þurfum að ræða í nefndinni og það þurfi að skýra þetta því ég tel að það þurfi að vera alveg ljóst að erfðafræðiupplýsingarnar verði að vera í öðrum grunni.

Ég tók þátt í umræðunni þegar málið kom fyrst til þingsins í vor og var þá frekar hlynnt málinu. Mér fannst þetta áhugaverð leið til að vinna að framþróun í heilbrigðismálum. En ég hef vissulega áhyggjur af því að í skoðanakönnunum kom fram, í upphafi umræðu um þetta mál, að meiri hluti Íslendinga var tilbúinn til að setja upplýsingar í grunninn en núna hefur komið fram að þeim hefur fækkað allmjög sem eru tilbúnir til að setja upplýsingar sínar í grunninn. En eins og komið hefur fram í umræðunni er það mikilvægt til að grunnurinn nýtist sem skyldi að meiri hluti Íslendinga verði með upplýsingar í grunninum. Annars verði hann mun lélegra tæki.

Mig langar aðeins að nefna nokkur atriði án þess ég ætli að endurtaka það sem kom fram í framsögu hv. formanns heilbr.- og trn., Össurar Skarphéðinssonar, um afstöðu okkar til þessa máls. Þó langar mig að nefna að ég fagnaði því að gerðar voru mikilvægar breytingar á frv. úr nefndinni þó ég telji alls ekki að þar hafi verið nóg að gert. Þar má nefna breytingu á 4. gr. þar sem bætt var inn ákvæði sem heimilar ráðherra að semja við rekstrarleyfishafa um sérstakar greiðslur í ríkissjóð sem endurgjald fyrir nýtingu heilsufarsupplýsinga úr sjúkraskrám. Ég hefði viljað sjá þarna að það væri skylda en ekki heimild að ráðherra skuli semja við rekstrarleyfishafa um sérstakar greiðslur í ríkissjóð. Auðvitað er það svo að þær upplýsingar sem liggja fyrir á heilbrigðisstofnunum eru tilkomnar vegna vinnu íslenskra heilbrigðisstarfsmanna og rekstur þeirra hefur verið kostaður af skattpeningum okkar, almennings, þannig að þarna er ákveðin auðlind sem rekstrarleyfishafinn hefur einn aðgang að að setja í miðlægan grunn og ég tel að hægt sé að líkja þessu við aðrar auðlindir sem við eigum sameiginlega. Þess vegna hefði ég talið eðlilegt að ráðherra væri skylt að semja við rekstrarleyfishafa um greiðslur fyrir aðgang að þessum upplýsingum. Þó tel ég þetta ákveðinn áfanga því að eins og málið var áður en það kom til nefndarinnar var þessa aðeins getið í grg.

[18:00]

Einnig leggur meiri hlutinn fram mikilvæga brtt. við 5. gr. sem eru ákvæði um að rekstur gagnagrunnsins skuli vera fjárhagslega aðskilinn frá öðrum samkeppnisrekstri rekstrarleyfishafa. Þetta er mjög mikilvægt atriði og styðjum við það heils hugar.

Síðast en ekki síst tel ég mikilvægt að sátt varð um að bæta inn í 12. gr. ákvæði um þverfaglega siðanefnd sem ætlað er að meta allar fyrirspurnir og rannsóknir sem gerðar eru í krafti gagnagrunnsins. Þar er átt við allar fyrirspurnir, einnig fyrirspurnir á vegum rekstrarleyfishafans sjálfs. Þarna er því komin mjög mikilvæg breyting inn í frv. Þetta er sem sagt metið af þessari þverfaglegu siðanefnd sem verður auðvitað að vera þverfagleg. Áður en rannsóknir eru unnar eða fyrirspurnum svarað þá verður mat nefndarinnar að hafa leitt í ljós að engin vísindaleg eða siðfræðileg sjónarmið mæli gegn framkvæmd rannsóknarinnar. Ég verð að segja að þetta er ein allra mikilvægasta breytingin sem gerð hefur verið á frv. um gagnagrunninn, þó að ég telji að gera þurfi ýmsar aðrar mikilvægar breytingar.

Ágreiningur er um ættfræðiupplýsingarnar. Það kom upp hér í umræðunni og er mál sem þarf leysa í nefndinni, án þess að ég ætli að fara út í mikla umræðu um það. Það þarf að vera algjörlega á hreinu hvort erfða- og ættfræðiupplýsingarnar eigi að fara inn í grunninn og ef svo er þá þarf nefndin að hefja vinnuna algjörlega að nýju. Þá þarf að byrja vinnuna algjörlega frá grunni því að öll umræðan í nefndinni miðaðist við það að þessar upplýsingar færu ekki inn í grunninn. Þá er nú alveg ljóst að þetta mál verður ekki samþykkt fyrir áramót eins og virðist vera ætlun meiri hlutans.

Við jafnaðarmenn í heilbr.- og trn., ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, höfum lagt fram nokkrar brtt. við frv. og ég ætla að gera stuttlega grein fyrir þeim. Við höfum lýst því yfir að við teljum að aðgengi vísindamanna að grunninum sé mikilvægt. Það er líka eitt þeirra atriða sem þarf að fara yfir í nefndinni aftur. Það þarf að skoða aðgengismálin. Einnig þarf að bæta inn í frv. skilgreiningu á þeim upplýsingum sem heimilt er að færa í miðlæga gagnagrunninn og hvaða upplýsingar megi ekki flytja þangað inn. Það er alveg ljóst eftir þessa umræðu að þessi brtt. er mjög nauðsynleg. Það á auðvitað að vera ljóst áður en þetta frv. verður samþykkt og verður að lögum að verður að vera ljóst hvað eigi að fara inn í þennan grunn og hvað á ekki að fara þangað.

Við tökum einnig á réttindum barna í brtt., en í lögum um réttindi sjúklinga er sérstakt ákvæði um að börn skuli vera höfð með í ráðum þegar meðferð þeirra er ákveðin. Í samræmi við það og í samræmi við aukin réttindi barna með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem hefur lagt mikla áherslu á að auka réttindi barna, þá leggjum við til að í 8. gr., þar sem fjallað er um réttindi sjúklings, komi inn ákvæði um að foreldrar skuli eftir því sem kostur er hafa börn sín með í ráðum þegar þau ákveða hvort leyfa skuli flutning heilsufarsupplýsinga um þau í miðlægan gagnagrunn, þ.e. með því að notfæra sér ekki fyrir þeirra hönd synjunarheimild 8. gr., og alltaf ef þau eru 12 ára og eldri. Þessi brtt. er efnislega samhljóða 2. mgr. 26. gr. laga um réttindi sjúklinga.

Í frv. er gert ráð fyrir því að einstaklingur eða sjúklingur geti hætt þátttöku í grunninum hvenær sem er, þ.e. að hann geti hvenær sem er látið stöðva flutning upplýsinga um sig inn í grunninn. Í vísindarannsóknum sem tengjast mönnum er algild regla að einstaklingar sem leggja til upplýsingar við rannsókn geti hætt þátttöku hvenær sem þeir vilja. En við hv. þm. Össur Skarphéðinsson teljum eðlilegt að það gildi einnig um rannsóknir sem gerðar eru í krafti miðlægs gagnagrunns og leggjum því til að í 8. gr. komi skýr heimild til sjúklings um að krefjast þess að öllum upplýsingum um hann sem fluttar hafa verið í miðlægan gagnagrunn verði eytt. Þetta var þó nokkuð rætt í nefndinni. Fyrst var því haldið fram að það yrði ekki mögulegt, að ekki væri mögulegt að eyða upplýsingum sem komnar væru inn í grunninn. Eftir að hafa spurst nokkuð fyrir um þetta og fengið upplýsingar um það frá tölvusérfræðingum kom í ljós að ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að eyða upplýsingum. Menn geta fundið einstaklinga í grunninum til að hægt sé að bæta við upplýsingum um hann og því á alveg eins að vera hægt að senda inn skilaboð um að eyða upplýsingum. Það eru bara grundvallarmannréttindi og réttindi sjúklings að geta látið eyða upplýsingum um sig í grunninum.

Rök sem komu fram í máli hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur þegar hún mælti fyrir meirihlutaálitinu í gær um að það mundi rýra gildi grunnsins og skaða rekstrarleyfishafann, þ.e. að þetta yrði ekki eins verðmætur grunnur, finnst mér ekki vera viðunandi rök. Ég tel að við þingmenn sem fjöllum um þetta mál eigum að gæta réttar sjúklinga fyrst og fremst. Við eigum að gæta réttinda þeirra Íslendinga sem eiga upplýsingar í grunninum, og samkvæmt íslenskum lögum eru það allir Íslendingar því að talað er um að sjúklingar séu þeir sem hafa notið heilbrigðisþjónustu og með þeirri skilgreiningu í lögum um réttindi sjúklinga má segja að allir Íslendingar falli undir hugtakið sjúklingar þó þeir séu við hestaheilsu, sem er náttúrlega dálítið merkileg niðurstaða.

Við höfum einnig lagt til í brtt. okkar að sett verði í frv. ákveðið bráðabirgðaákvæði um að landlækni verði falið að standa fyrir upplýsingaherferð til að kynna almenningi rétt hans til að synja þátttöku í miðlægum gagnagrunni. Þetta tel ég vera mjög mikilvægt atriði, að fram fari gagnger kynning fyrir almenning um réttindi hans gagnvart gagnagrunninum. Það er alveg ljóst að þó svo að umræða hafi verið mikil um gagnagrunninn og þetta þingmál í fjölmiðlum og meðal almennings þá held ég að fólk geri sér alls ekki grein fyrir því hvers konar tæki þetta er né öllum þeim þáttum sem frv. tekur á. Því er mjög mikilvægt að efnt verði til þessarar kynningar og upplýsingaherferðar og vonast ég annað hvort til að meiri hlutinn fallist á þetta eða að við munum sameiginlega, öll nefndin, flytja brtt. eftir að málið fer til nefndar að lokinni 2. umr.

Margoft hefur komið fram í þessari umræðu hve mikilvægt við teljum að öllum vísindamönnum verði tryggður aðgangur að rannsóknum í gagnagrunninum og í nál. okkar eru reifaðar tvær leiðir til þess að ná því en ekki er tekin afstaða til þeirra. Við höfum ákveðið að leggja ekki fram sérstaka brtt. heldur vonumst við til þess að hægt verði að komast að samkomulagi um málið og leggjum því ekki til hvora leiðina eigi að fara því mjög mikilvægt er að einhver sátt náist um aðgengismálin.

Mikil umræða var um aðgengisnefndina svokölluðu. Stjórnarliðar í nefndinni hafa haldið því ákvæði til streitu að rekstrarleyfishafi eigi fulltrúa í aðgengisnefndinni sem við teljum óviðunandi og hefur verið gagnrýnt harðlega af vísindamönnum. Mjög hörð andstaða vísindamanna hefur komið fram við setu fulltrúa rekstrarleyfishafans í nefndinni og mætti náttúrlega hafa langt mál um það. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson rakti það mál mjög ítarlega í langri framsögu sinni fyrir nál. okkar í gær þannig að ég tel ekki ástæðu til að lengja umræðuna með því að endurtaka það allt saman, enda gerði hann því mjög góð skil.

Eins og ég gat um áðan er einnig mjög ítarlega gerð grein fyrir því hvernig við teljum að einkaleyfismálin og aðgengismál vísindamanna brjóta reglur EES. Heilbr.- og trn. hefði e.t.v. átt að kalla eftir áliti um þetta meðan málið var í vinnslu þar, en þar sem því hafði verið synjað algjörlega að fá álit frá útlöndum vegna málsins þá gerði maður ekki ráð fyrir því að meiri hlutinn samþykkti að fá það álit. Ég hefði talið æskilegt að fá álit frá Eftirlitsstofnun EFTA um þessi atriði því það er náttúrlega afleitt ef við samþykkjum frv. til laga sem brýtur í bága við alþjóðasamninga sem við erum aðilar að. Það á auðvitað ekki að eiga sér stað og slík lög standast náttúrlega ekki lengi þegar búið verður að taka á því.

[18:15]

Enn vil ég nefna að einkaleyfið hefur verið gagnrýnt og var gagnrýnt í mörgum umsögnum að ekki væru skýr rök fyrir einkaleyfi í sjálfu frv. Lagastofnun bendir á það í umsögn sinni eins og komið hefur fram í umræðunni og urðu nokkur orðaskipti um það fyrr í dag, að þá voru þau rök sem nefnd hafa verið um það að stofnkostnaður við gerð gagnagrunnsins sé hár og líklegur til þess að verða umtalsvert hærri fyrir þann sem fer fyrstur af stað með slíkan grunn. Það er auðvitað ljóst að svo hlýtur að vera. Það hefur líka verið nefnt sem efnisleg rök að mikil óvissa ríki um hagnýtingarmöguleika gagnagrunnsins, slíkur grunnur hafi aldrei verið markaðssettur áður og yrði einkaréttur ekki veittur gæti það leitt til samkeppni sem ylli því að heildarverðmæti sem rynnu inn í landið vegna viðskipta með upplýsingar úr grunninum yrðu minni en ella.

Þessum rökum hafna bæði Samkeppnisstofnun og Lagastofnun Háskóla Íslands. En fulltrúar stjórnarliða eða meiri hlutans halda sig enn við þessi rök. Samkeppnisstofnun segir alveg skýrt að vafasamt sé að rök um mikinn stofnkostnað réttlæti einkarétt. Hún bendir á að slík rök mætti nota í mörgum tilvikum til að komast hjá eftirliti á grundvelli samkeppnisreglna EES-samningsins og bendir sérstaklega á stóriðju sem dæmi um fyrirtæki þar sem stofnkostnaður er gríðarlega hár og mikil óvissa ríkir um markaðssetningu.

Hv. þm. Tómas Ingi Olrich gerði lítið úr rökum í þessa veru í máli sínu fyrr í dag og hæddist nánast að þeim sem hefðu haldið þessu fram, að bera saman rekstur gagnagrunns og stóriðju, en ég get ekki séð annað en að þetta séu fyllilega réttmæt rök og réttmæt samlíking sem er í áliti Samkeppnisstofnunar.

Í áliti Lagastofnunar er nákvæmlega sama viðhorf að finna. Hún rekur að einkarétturinn sé í frv. rökstuddur m.a. með tilvísun til þess að hann kosti allt að 19,3 milljörðum kr. og áhætta þess sem ræðst í smíði hans sé því veruleg. Þessum rökum frv. er hins vegar hafnað í áliti Lagastofnunar. Hún segir hreint út að frá sjónarhóli EES-réttar geti það tæpast réttlætt einkarétt enda eru það þá rök sem eiga alltaf við þegar fjárfesting er mikil, óháð því hvers konar atvinnustarfsemi á í hlut.

Það er því ljóst að einu rökin fyrir einkaréttinum sem komið hafa fram af hálfu fulltrúa stjórnarflokkanna í umfjölluninni í heilbr.- og trn. er hafnað bæði af Lagastofnun Háskóla Íslands og Samkeppnisstofnun. Lagastofnun treystir sér ekki einu sinni til að fullyrða að einkarétturinn standist EES-reglur.

Mig langar að nefna eitt atriði í viðbót sem ég teldi ástæðu til að athuga og það er að ég tel að það beri að bjóða út gerð gagnagrunnsins. Við fulltrúar jafnaðarmanna í heilbr.- og trn. teljum það óhjákvæmilegt og kemur það fram í nál. okkar að útboð þurfi að fara fram. Það er rakið mjög ítarlega í nál. okkar hvers vegna það er. Það kom einnig fram hjá fulltrúum Ríkiskaupa, sem komu á fund nefndarinnar, að þeir teldu að útboð ætti að fara fram.

Samkvæmt EES-reglum ber íslenska ríkinu skylda til að bjóða út þjónustu sem þessa, þ.e. gerð miðlægs gagnagrunns á heilbrigðissviði, fari verðmæti viðskiptanna yfir 16 milljónir og 300 þúsund. Þá ber einnig skylda til að auglýsa útboðið á hinu Evrópska efnahagssvæði.

Ég get ekki séð hvað menn óttast við útboð. Ég get ekki ímyndað mér að það verði aðrir en Íslensk erfðagreining sem muni fá þetta. Þeir hafa haft mjög góðan og ríflegan tíma til að undirbúa sig, hafa haft beinan og greiðan aðgang að stjórnvöldum við að útbúa þetta frv. og við alla vinnslu, þannig að ég get ekki séð að, sé það vilji stjórnvalda að Íslensk erfðagreining fái þetta verk, ættu þeir ekki að þurfa að óttast mikið þó að það færi fram útboð.

Ég ætlaði ekki að hafa ræðu mína miklu lengri. Ég vonast til þess að menn geti komið að málinu í nefndinni aftur og þar verði hægt að taka á þessum atriðum sem ekki er sátt um og hafa verið óljós í umræðunni. Einnig teldi ég að málið þyrfti mun lengri vinnslu vegna þess að málið er í uppnámi í samfélaginu. Sömuleiðis hafa komið fram atriði eins og þetta með brot á reglum EES og nýfallinn dómur í kvótamálinu hjá Hæstarétti sem gera það að verkum að það þarf að skoða þessi mál mun betur.

Ég vil í lokin, herra forseti, halda því til haga að ég var með ákveðnar fyrirspurnir um réttindi sjúklinga til heilsufarsupplýsinga sinna, sem ég nefndi vegna skrifa Boga Andersens í föstudagsblaði Morgunblaðsins, sem ég óska eftir að komi skýrt fram í máli meiri hlutans, þannig að alveg sé ljóst að ekki sé á nokkurn hátt verið að skerða réttindi sjúklinga til heilsufarsupplýsinga þeirra með þessu frv.

Ég vil líka ítreka að það þarf að skilgreina einkaréttinn, verði haldið við hann þá þarf að skýra hann nánar, það þarf að koma skilgreining á honum. Það þarf að koma fram hversu víðtækur einkarétturinn er. Ég hefði einnig talið æskilegt að nefndin ræddi nokkuð hvað gæti falist í samningum rekstrarleyfishafa við heilbrigðisstofnanir og hvort hægt væri að þrengja þennan einkarétt eitthvað með því. Það hefði ég talið fulla ástæðu til að nefndin skoðaði og auðvitað ýmis fleiri mál sem hafa komið hér.

Það er reyndar eitt atriði í viðbót sem ég ætla að minnast á sem ég hef verulegar áhyggjur af en það er ástandið í vísindasamfélaginu vegna málsins sem ég óttast að muni gera gagnagrunninn lélegt tæki. Ég vil að lokum taka undir álit stjórnar siðfræðiráðs Læknafélags Íslands sem við fengum sent en er birt hér í nýjasta Læknablaðinu, sem kom út núna í desember. Þeir segja í áliti sínu:

,,Augljóst er af þjóðfélagsumræðunni að ótækt er að afgreiða frumvarp sem þetta á nokkrum mánuðum. Til þess eru vafaatriði of mörg. Ekki liggur fyrir hvaða upplýsingar eiga að fara í gagnagrunninn.``

Þetta er alveg rétt og skilgreina verður hvaða upplýsingar eiga að fara í þennan grunn og hvaða upplýsingar eiga ekki að fara í þennan grunn. Það er heilmikið verk sem bíður hv. heilbr.- og trn. að lokinni umræðunni, a.m.k. er það mat mitt. Ég efast ekki um að farið verði í þá vinnu af sömu eljusemi og gert var fram að þessari umræðu. Það hefur verið unnið mjög ítarlega við þetta mál, margir kallaðir til, en það er greinilega heilmikil vinna fram undan.