Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 22:02:56 (1806)

1998-12-08 22:02:56# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[22:02]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur í löngu máli um frv. um miðlægan gagnagrunn vitnað í vísindasamfélagið eins og það leggur sig en allir vita að það er klofið í áliti sínu á frv. Það er út af fyrir sig ekkert skrýtið þótt vísindasamfélagið sé ekki sammála um svo stórt mál sem þetta, enda mikil samkeppni innan þess. Mér finnst minna hafa farið fyrir því hjá hv. þm. sem snýr að ungu menntuðu fólki sem sér bjartari framtíð í vel launaðri vinnu sem annars hefði ekki fengist á Íslandi. Það fær vinnu sem það mundi ekki fá nema erlendis ef ekki kæmu til þeir möguleikar sem skapast hafa með Íslenskri erfðagreiningu og þeirri gríðarlegu vítamínsprautu sem komið hefur í íslenskt atvinnulíf og vísindasamfélag á þeim árum sem þetta fyrirtæki hefur starfað.

Ég held að þetta sé eitt það mikilvægasta sem stofnað hefur verið til á landinu um áratuga skeið, þ.e. þetta fyrirtæki, þær hugmyndir og sá kraftur sem þessu fyrirtæki fylgir. Krafturinn er fyrst og fremst til að byggja upp trú ungs fólks á því að hér sé framtíð. Hv. þm. getur þrasað endalaust um siðferðisspurningarnar í þessu dæmi, hvar vísindin eigi að byrja, hvar þau eigi að enda og hvar tilraunirnar eigi að enda. Ég held við megum aldrei gleyma því að hér er líka verið að reyna að skapa samfélag fyrir alla þjóðina, unga sem aldna.