Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 22:07:48 (1808)

1998-12-08 22:07:48# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[22:07]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er alls ekki að gera lítið úr vísindastörfum íslenskra vísindamanna. Ég held einmitt að góð kynni Íslendinga af vísindastörfum og tilraunum í gegnum áratugina séu ástæða þess hversu óttalausir við erum við nýjungar á þessu sviði. Við þekkjum það að Níels Dungal stundaði miklar rannsóknir hér á árum áður, safnaði hér sýnum sem ekki voru talin mikilsverð í raun, en áhugamál hans var að safna sem mestum upplýsingum um íslenska þjóð. Í dag er þetta safn hans orðið að mikilvægum upplýsingum um heilsufar Íslendinga á síðustu áratugum. Ég held að allt sem gert hefur verið hjá Krabbameinsfélaginu, Blóðbankanum, Hjartavernd og öllum þessum aðilum hafi sýnt hve tilbúin íslenska þjóðin er til þátttöku.

Í raun hefur náðst mikill árangur á þessum vísindastöðvum. Þó er ljóst að við getum gert enn þá betur og ég held að starfsfólk Íslenskrar erfðagreiningar hafi sýnt okkur að hægt sé að gera miklu meira. Það er hægt að nýta sér þær upplýsingar sem til eru í landinu á miklu einfaldari og skilvirkari hátt en annars staðar í heiminum. Að við séum tilraunadýr hljómar eins og skammaryrði úr munni hv. þm. Ég veit ekki betur en sífellt séu reynd lyf, t.d. á sjúklingum sem verið er að reyna að lækna. Stöðugt er reynt að finna ný og betri lyf til að lækna menn með, með öllum mögulegum ráðum. Af hverju er það svona tortryggilegt? Það er enginn neyddur til að taka lyf sem er heilbrigður. Að sjálfsögðu ekki. Sú umræða sem fer fram hér í þinginu, er komin langt fram úr allri eðlilegri gagnrýni, herra forseti.