Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 22:35:49 (1811)

1998-12-08 22:35:49# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[22:35]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það verður ekki sagt að menn séu hættir að koma á óvart. Það á við um hv. síðasta ræðumann sem flutti eins konar stólræðu eða ræðu í stólræðustíl, framhald af því viðtali sem ég hlýddi á í gærkvöldi í sjónvarpinu, þar sem inngangurinn var að komið væri með aðra sýn á þetta umdeilda mál en hingað til hefur heyrst, eins og það var kynnt.

Og þessi önnur sýn sem kemur fram í máli hv. þm., henni er kannski best lýst í einu orði, framfarir. Og ég bæti við framfarir án fyrirvara. Maður hefði satt að segja gert ráð fyrir öðru mati frá manni með geistlega menntun, virðulegur forseti, en það kom raunar fram hjá hv. ræðumanni í gær að kirkjan væri ekki einhuga í þessu máli, og það höfum við m.a. heyrt í tilvitnuðum orðum hér fyrir stuttu í umræðunni úr grein eftir herra biskupinn, Karl Sigurbjörnsson.

Fyrir utan þessa ábendingu og athugasemd, virðulegur forseti, vil ég spyrja hv. þm.: Hvað á hv. þm. við þegar hann segir að rannsóknarheimildir eða heimildir fyrir aðgengi íslenskra vísindamanna séu eins og frekast sé kostur án þess að ganga gegn EES-samningi? Ég vildi gjarnan fá nánari útlistun á þessum orðum áður en lengra er haldið.