Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 22:47:30 (1819)

1998-12-08 22:47:30# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[22:47]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Hjálmar Jónsson segist vilja fara varlega í þessu máli. Hann vill ekki fara varlegar en svo að hann er reiðubúinn að ganga gegn Helsinki-sáttmálanum, siðasáttmála læknastéttarinnar og vísindamanna. Hann er tilbúinn að ganga gegn siðfræðiráðum læknastéttanna, vísindasiðanefnd, Mannréttindaskrifstofunni, svo nokkrir séu upp taldir, auk samtaka sjúklinga sem vara mjög eindregið við þessu.

Við þurfum að vera reiðubúin að taka áhættu, segir hv. þm. Hjálmar Jónsson. Eitt er víst. Við erum að slást í för með áhættufjárfestum, eigendum þess fyrirtækis sem fyrirhugað er að fái einkarétt á heilsufarsupplýsingum Íslendinga.

Ég held að nokkuð sé vitað um hvað hendir okkur. Við því erum við sem höfum lagst gegn þessu frv. að vara.

Hv. þm. sagði að ég hefði verið dapur í bragði þegar ég flutti mál mitt áðan. Staðreyndin er sú að mér finnst þetta dapurlegt mál. Það er ekki rétt hjá honum að þetta sé á borð við hvert annað mál --- eða það lá í hans orðum --- og svo komi næsta mál. Þetta er miklu stærra mál en svo.

Í þessu andsvari vildi ég spyrja hv. þm. nánar út í það sem hann sagði um ábyrgð rekstrarleyfishafa gagnvart einstaklingnum. Hann sagði að hann væri ekki firrtur ábyrgðinni á því að hjúkra og lækna. Ég man ekki hvernig þetta var orðað en hann sagði rekstrarleyfishafa ekki firrtan ábyrgðinni gagnvart einstaklingnum, að rekja sig til baka til hans.

Mig langar til að fræðast um hvernig hv. þm. Hjálmar Jónsson sér rekstrarleyfishafa axla ábyrgð sína í þessu efni.