Formennska í sjávarútvegsnefnd

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 13:32:18 (1844)

1998-12-09 13:32:18# 123. lþ. 36.91 fundur 151#B formennska í sjávarútvegsnefnd# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[13:32]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að kveðja mér hljóðs um störf þingsins vegna þess að frést hefur að væntanlegt er frv. sem tengist hæstaréttardómi. Ekki er vitað enn þá hvaða vinnslu það fær á hinu háa Alþingi en ég vil benda á að ég hef fyrir hönd þingflokks jafnaðarmanna gert athugasemdir við það að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, núv. formaður sjútvn., starfi sem slíkur án þess að það mál sé rætt milli þingflokksformanna og stjórnar þingsins. Bæði ég og hv. þm. Svavar Gestsson hafa gert þetta að umtalsefni. Hv. þm. var kosinn fyrir tilstuðlan okkar stjórnarandstæðinga til setu í nefndinni. Um það var samkomulag og ég er ekkert að setja út á störf hv. þm. heldur að gera athugasemdir og spyrja forseta hvenær hann hyggist taka þetta mál upp.

Ég bendi á að í utandagskrárumræðu fyrir helgi um margumræddan hæstaréttardóm kom fram ósk frá okkur í þingflokki jafnaðarmanna um að sjútvn. mundi fjalla um þetta mál. Það mál var gert að umtalsefni. Ekki var haldinn fundur í sjútvn. fyrr en núna á þriðjudaginn. Þar var þetta mál ekki tekið fyrir þrátt fyrir ósk nefndarmanna úr þingflokki jafnaðarmanna. Því var borið við að málið hefði ekki verið á dagskrá og ekki var fjallað um það. Þarna beitti formaður sjútvn. því valdi sem hann hefur sem formaður.

Mér finnast þetta, herra forseti, óeðlileg vinnubrögð. Það liggur fyrir að ágreiningur er um þetta efni í þinginu og það þarf að ræða það milli þingflokksformanna. Ég þykist þess fullviss að menn finni lausn á því en meðan málið er á svo viðkvæmu stigi er ekki þolandi að það sé látið óátalið á hinu háa Alþingi. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson situr ekki sem formaður sjútvn. í umboði okkar stjórnarandstæðinga. Margt bendir til þess að viðkvæm mál milli stjórnar og stjórnarandstöðu komi til umræðu í nefndinni og í þinginu á næstu dögum og það er því brýnt að þessi mál séu rædd í samhengi.