Formennska í sjávarútvegsnefnd

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 13:36:42 (1846)

1998-12-09 13:36:42# 123. lþ. 36.91 fundur 151#B formennska í sjávarútvegsnefnd# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[13:36]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það er alveg ljóst að þegar menn komu til þings í haust var farið nákvæmlega eins að og oft hefur verið gert áður. Gert var samkomulag milli stjórnar og stjórnarandstöðu um hvernig beri að haga í kjöri trúnaðarmanna í þinginu. Það var ekkert farið öðruvísi að því núna en oft áður. Þingflokkur jafnaðarmanna er vitaskuld aðili að því nákvæmlega eins og þingflokkur Alþb. var sem hv. þm. sat í á þeim tíma.

Hv. þm. var kosinn í sjútvn. og stjórnarandstaðan fékk þrjá formenn sem eru hv. þm. Össur Skarphéðinsson, hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir og síðan var á fyrra þingi hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon formaður sjútvn. Niðurstaðan í máli stjórnar og stjórnarandstöðu núna í haust var að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson mundi gegna forstöðu í sjútvn. Hann var þá í þingflokki Alþb. Síðan gekk hann úr þingflokki Alþb. Þetta var látið óátalið. Ekki er verið að gagnrýna persónuna Kristin H. Gunnarsson í þinginu af minni hálfu. Ég er að benda á að það þarf að taka þessi mál upp. Það þarf að ræða þessi mál. Það er ekki hægt að koma hér eins og hv. þm. og tala um það að menn óttist einhverja sókn frá vinstri yfir á miðjuna. Það er meira hvað þingmaðurinn er orðinn mikill framsóknarmaður á tveimur dögum. Það er þá vandamál hans að glíma við það að komast í forustu á Vestfjörðum, það kemur mér ekki við. (Gripið fram í.) Ég er að tala um vinnubrögð á hinu háa Alþingi. Ég hef farið fram á það við hæstv. forseta að þetta mál verði tekið til umræðu á réttum vettvangi. Hv. formaður þingflokks Alþb. hefur sömuleiðis gert það opinberlega. Ég krefst þess, herra forseti, að þessi mál verði rædd. Ég er ekki að biðja um annað. Varðandi fundinn í sjútvn. hafa félagar mínir sagt að þeir hafi lýst því yfir sem þá voru þar viðstaddir að þeir hefðu nægan tíma þó að komið væri undir lok fundarins til að ræða það mál og vildu gefa sér þann tíma. (Gripið fram í.) Það eru þær upplýsingar sem ég hef varðandi þetta mál og það væri þá sjálfsagt að boða til aukafundar í sjútvn. til að ræða þetta mikilvæga mál. Það er hins vegar einungis hluti af þessu.