Formennska í sjávarútvegsnefnd

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 13:45:40 (1853)

1998-12-09 13:45:40# 123. lþ. 36.91 fundur 151#B formennska í sjávarútvegsnefnd# (aths. um störf þingsins), VE
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[13:45]

Vilhjálmur Egilsson:

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi staðfesta að stjórn hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar á sjútvn. hefur verið með ágætum þann tíma sem hann hefur gegnt því starfi. Svo háttaði til þegar nefndin var kosin í haust að þá var hv. þm. í Alþb. hinu forna og annar hv. þm., Steingrímur J. Sigfússon, sótti um áheyrnaraðild að nefndinni sem hann fékk. Síðan þegar nefndin var að leggja land undir fót og fara vestur á firði kom þar til liðs annar ágætur hv. þm. Alþb., Svavar Gestsson, og í nefndinni voru menn að gæla við að hann mundi líka sækja um áheyrnaraðild þannig að í nefndina væru þá komnir annaðhvort beint eða óbeint þrír hv. þm. þess forna bandalags.

Greinilegt er að það er hættulegt starf að vera formaður í þessari ágætu nefnd því eins og fram kom áðan hafa þeir sem hafa gegnt því starfi á þessu kjörtímabili báðir horfið til annarra flokka úr Alþb. Núna eru í nefndinni af hálfu stjórnarandstöðunnar tveir úr þingflokki jafnaðarmanna og þá vaknar sú spurning: Er meiningin að annarhvor þessara hv. þm. jafnaðarmanna fái formennsku í nefndinni eða á að taka upp kosningu í nefndina þannig að hægt sé að koma í hana einhverjum fulltrúa Alþb. hins forna og er það þá í hátt við það samkomulag sem gert var að tveir hv. þingmenn jafnaðarmanna verði nefndarformenn? Ég mundi líka athuga það frá þeirra sjónarhóli í ljósi sögunnar, þetta gæti verið ákveðið hættuspil. Það er kannski ekki bara sókn frá Alþb. í Framsókn heldur gætu kannski einhverjir úr þessum ágæta þingflokki leitað inn í Sjálfstfl. ef áfram héldi sem horfir.