Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 14:17:57 (1867)

1998-12-09 14:17:57# 123. lþ. 36.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, LMR (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[14:17]

Lára Margrét Ragnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir andsvarið. Ég tel að eitthvað ákveðnara hefði þurft í þessum lögum en að minnast vart á hvaða upplýsingar eigi að fara í gagnagrunninn. Ég tel t.d. að mögulegt hefði verið að afmaka það, ekki endilega eftir stofnunum heldur eftir sérgreinum, vegna þess að sérfræðingar hafa ákveðið verklag og e.t.v. væri hægt að skoða hvernig þeir byggja sjúkraskýrslur sínar.

Við erum hugsanlega að fara að opna sjúkraskýrslur í meira mæli en hingað til í rannsóknarvinnslu og ég hefði talið eðlilegt að við reyndum að gera þetta. Sömuleiðis hefði ég þá gjarnan viljað fá hóp sérfræðinga til þess að vinna að þessu með okkur og þá úr ýmsum sérgreinum.

Hins vegar ætla ég nú að treysta því að þetta verði unnið af framkvæmdarvaldinu eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi. Ég treysti því að það verði þá a.m.k. fyrsta skrefið í þróun þessara laga. Þegar svo ný lög koma til framkvæmda hlýtur að vera ástæða til þess að taka þau til endurskoðunar eftir því sem þörf krefur.