Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 14:41:20 (1869)

1998-12-09 14:41:20# 123. lþ. 36.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[14:41]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kom fram í upphafi máls hv. þm. sem hér talaði að hér væri um alveg einstakt mál að ræða, að Ísland væri einstakt o.s.frv. Þetta er staðhæfing sem hefur fylgt þessu máli lengst af. Ég held að þetta sé ekki rétt og ég reyndi í umræðu í nótt, sem ekki kannski margir heyrðu, að færa fyrir því rök að þetta er ekki þannig. Við erum aðeins hluti af þróun sem er að ganga yfir heiminn allan, má segja, þar sem viðskiptaaðilar, sumir fjársterkir, ætla sér að komast yfir fé. Það er aðalhreyfiafl málsins. Það eru peningar í þessu. Og þeir aðilar sem þar eru á ferðinni verða ekki taldir á fingrum annarrar handar eða beggja handa. Þeir skipta hundruðum, kannski þúsundum --- hærri talan sem ég nefni er líklegri --- kannski mörg þúsund, sem eru á ferðinni að kemba heiminn í leit að erfðaupplýsingum. Það sem er að gerast hér er aðeins örlítið brot í því samhengi. Upptök þessa máls? Ég held að ævintýrið um skólabræðurna komi tiltölulega seint inn í þetta mál. En það er alveg ljóst af því sem ég vitnaði til í ræðu minni fyrr í umræðunni að þetta mál er komið á fullan skrið 1995 í bréfaskiptum milli núverandi forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar og fyrirtækisins Sequana, minnir mig að það kallist, kalifornísks erfðafyrirtækis, þar sem þessi mál eru rædd. Ísland þykir alveg sérstaklega girnilegt fyrir lyfjaiðnaðinn vegna hins hvíta kynstofns sem hér er og er lítið blandaður öðrum. Eylönd og fámennir kynþættir eru sérstaklega í skotlínu eða sérstakega eftirsóttir af þessum aðilum vegna þess að þar kann að vera eitthvað sérstakt að finna og menn reyna að komast yfir þetta og eignast réttinn yfir þessu. Þetta er hér á ferðinni og það er hið stóra í þessu máli.