Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 14:43:55 (1870)

1998-12-09 14:43:55# 123. lþ. 36.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[14:43]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski þannig í þessu máli að ekkert sérstaklega langt er á milli okkar hv. þm. í því. Það sem ég átti við þegar ég talaði um að þetta væri einstætt var kannski það sem hv. þm. kom að í máli sínu í lokin þegar hann sagði að Ísland sé kannski sérstaklega eftirsóknarvert í þessu tilviki. Við það átti ég þegar ég sagði að málið væri einstætt og að þarna væri á ferðinni auðlind sem við ættum hugsanlega að skoða að nota, en ekki með þeirri aðferðafræði sem hér er á ferðinni. Það er kannski þetta sem ég var fyrst og fremst að segja. Það er grafalvarlegt mál að við hugsanlega höfum tækifæri sem við gætum nýtt, en við ætlum að nýta það með þeim hætti sem birtist í frv meiri hlutans. Það er þetta sem ég á við þegar ég segi: Við erum fámenn, við höfum meiri áhuga ættfræði en tíðkast annars staðar, að því er ég best veit, og við erum einsleit þjóð. Mér sýnist þetta vera auðlind og við eigum að ráða því sjálf hvernig við nýtum hana. En við eigum alls ekki að gera það þannig að nýtingin fái ekki einu sinni samræmst grundvallarreglum samfélagsins, þ.e. stjórnarskránni, og ekki einu sinni alþjóðaskuldbindingum sem við höfum gengist undir. Þess vegna, virðulegi forseti, finnst mér þetta grafalvarlegt mál. Í mínum huga er þetta einstakt vegna þess að ég held að þarna sé á ferðinni auðlind. En við erum á miklum villigötum á þeirri leið að reyna að nýta hana.