Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 14:45:29 (1871)

1998-12-09 14:45:29# 123. lþ. 36.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[14:45]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vænti þess að ekki sé mjög langt á milli okkar hv. þm. þó að mér finnist kannski helst til langt gengið með því frv. sem hv. þm. hefur lagt fram sem er í rauninni að vissu leyti uppáskrift á þessa leið. Ég er með miklar efasemdir um að það hafi verið skynsamlegt að leggja það mál inn eins og gert var af hv. þm. sem er meðflm.

Ég vil ekki heldur taka að lítt athuguðu máli undir staðhæfinguna um einsleitni Íslendinga. Það má vel vera að hægt sé að halda því fram með réttu, ég fullyrði það ekki. En ég hef lesið greinar eftir menn sem hafa verið að vinna í þessum málum sem draga þessa staðhæfingu verulega í efa m.a. vegna íblöndunar okkar við Kelta á sínum tíma, hinn norræni þáttur og hinn keltneski þáttur en hins vegar er ljóst að ekki hefur verið mikil íblöndun erfðafræðilega frá þeim tíma.

Meginatriðið er að við eigum ekki að láta peningaöfl utan úr heimi sem eru hér á ferðinni stjórna. Þetta er engin rómantík, það eru engar hugsjónir um lækningar sjúkdóma eða framleiðslu á meðulum eða annað sem er hreyfiaflið í þessu máli. Það eru peningar, það er sókn í gróða og til þess þurfa menn að komast yfir erfðaupplýsingar. Þeir eru að leita að löndum eins og Íslandi í þessu samhengi og fjölmörgum öðrum og takmörkuðum, afmörkuðum kynþáttum til að komast yfir erfðaauðlindir þeirra og skilja þá eftir með skít og skömm eftir allt saman. Það er það sem er á góðri leið með að gerast hér ef þetta mál nær fram að ganga.

Virðulegur forseti. Ég held að þörf væri fyrir menn að fara yfir reynslu nágrannalanda eins og Finna í þessu máli að kynna sér ummæli Marju Sorsa í Morgunblaðinu 21. október sl. Það ættu menn að gera. Þá opnast kannski augu manna fyrir því út á hvaða óheillabraut er verið að fara. En óvissan er mörg sem þessu máli tengist og hér hefur komið fram og þar á meðal varðandi persónuverndina og spurninguna um persónugreinanlegar upplýsingar í samhengi erfðafræðiupplýsinga ef þær verða hluti af þessum grunni.