Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 15:25:20 (1876)

1998-12-09 15:25:20# 123. lþ. 36.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[15:25]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þarna greinir okkur hv. þm. Hjörleif Guttormsson á. Ég tel t.d. að þessar upplýsingar séu ópersónugreinanlegar eins og Lagastofnun telur en það telur hv. þm. Hjörleifur Guttormsson ekki. Ég tel að tölvunefnd sé fær og fullbær um að hafa eftirlit með þessum gagnagrunni. Ég vil sérstaklega minna á orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem hann lét falla hér í fyrradag um að hann treysti tölvunefnd. Ég treysti henni líka. Ég treysti henni til að sjá svo um að vinnuferlið sem sett verður upp milli þessara grunna, verði það niðurstaðan að setja upp sérstakt vinnuferli milli þeirra þriggja, standist persónuverndina. Ég tel það tæknilega hægt. Til nefndarinnar höfum við fengið tæknimenn sem telja þetta mögulegt, reyndar með miklum tilkostnaði og miklum æfingum en væntanlegur starfsleyfishafi á að greiða þann kostnað.