Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 18:01:47 (1896)

1998-12-09 18:01:47# 123. lþ. 36.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[18:01]

Ögmundur Jónasson (frh.):

Hæstv. forseti. Ég vil hefja mál mitt á að ræða um vinnubrögð þingsins í þessu máli. Ég held að nauðsynlegt sé fyrir þingið að vita hvaða áform eru uppi af hálfu stjórnenda þingsins um framhaldið, bæði í kvöld og næstu daga. Í gær var mönnum haldið í óvissu um þinglok og þeir kallaðir í ræðustól upp úr miðnætti og fundað fram í morgunsárið. Ég held að nauðsynlegt sé áður en við höldum áfram með dagskrána núna að fá upplýsingar frá hæstv. forseta þingsins um hvort áform eru uppi um að halda umræðunni áfram langt fram á kvöld eða fram í morgunsárið. Hvaða áform eru uppi varðandi mogundaginn?

Í þessu máli hafa komið fram mjög alvarlegar ásakanir. Ljóst er að meiri hluti heilbr.- og trn. boðar breytingar á frv., sem menn hafa haft til umræðu. Þær upplýsingar sem fram hafa komið eru hins vegar mjög misvísandi. Sumar ganga þvert á það sem áður hefur verið boðað, t.d. um hvað heyri til gagnagrunninum, hvað eigi að vera þar inni. Ég held því að mikilvægt sé, áður en við höldum þessum fundi áfram, að við fáum upplýsingar um hvaða áform eru uppi frá hæstv. forseta eða hafa menn ekki gert það upp við sig? Á að halda áfram umræðu fram á kvöld, fram í morgunsárið? Hvaða áform eru uppi? Ég leyfi mér að beina þeirri spurningu til hæstv. forseta áður en ég held áfram máli mínu.

(Forseti (GÁ): Forseti getur upplýst að áformin eru að ljúka þessu máli. Fimm hv. þingmenn eru á mælendaskrá og því hefur forsn. ákveðið að hér verði kvöldfundur. (SvG: Það er rangt, forsn. hefur ekki gert það.) Forseti þingsins átti fund áðan og þar var það ákveðið þannig að ég fer með rétt mál.)

Ég leyfi mér að óska eftir því að hæstv. heilbrrh. verði viðstaddur umræðuna. Ég sé að hér er talsmaður meiri hluta heilbrn. kominn. En, hæstv. forseti, mér finnst þetta ekki ...

(Forseti (GÁ): Forseti verður við þeirri ósk.)

(Gripið fram í: Hvað með fulltrúa Sjálfstfl. í nefndinni?) Ég leyfi mér að ítreka þá spurningu sem ég setti fram hér áðan til hæstv. forseta um hversu lengi er áformað að halda umræðunni áfram. Hvort það verði fram á kvöld eða fram í morgunssárið. Mér er sagt að þingflokksfundir Framsfl. og Sjálfstfl. standi enn yfir. Ég óska eftir því að fundi verði frestað og tel algjörlega óásættanlegt að þingmönnum sé boðið upp á þetta, að þingmönnum stjórnarandstöðu sé boðið upp á þetta, að hér sé fram haldið fundi á meðan þingflokksfundir Sjálfstfl. og Framsfl. standa yfir.

(Forseti (GÁ): Forseti fer fram á það að þessum þingflokksfundum ljúki nú þegar. Það var ákveðið að þeir stæðu frá kl. 16 til kl. 18 og þeim ber að ljúka núna. Forseti mun gera þingflokkunum viðvart um kröfu hv. þm. og væntir þess að þeim verði lokið innan tveggja, þriggja mínútna.)

Ég mun halda áfram máli mínu þá fyrst að ég fæ vitneskju um að þingflokksfundum sé lokið. Ég er reiðubúinn að standa í pontunni þangað til en ella mun ég víkja úr pontu þar til hæstv. forseti hefur fengið upplýsingar um þetta efni.

Er hæstv. forseti reiðubúinn að verða við þessum sanngjörnu óskum?

(Forseti (GÁ): Forseti væri mjög sáttur með að hv. þm. biði í tvær til þrjár mínútur meðan þingflokksfundunum lýkur.)

Og vonandi sáttur við að ég víki úr pontu meðan á þeirri bið stendur?

(Forseti (GÁ): Nei.)

Hér úr þingsal er horft á mig og ég vil upplýsa að Alþingi Íslendinga er að störfum. Að beiðni forseta er ég beðinn um að bíða í ræðustól þar til stjórnarflokkarnir hafa lokið þingflokksfundum. Að sjálfsögðu verður ekki haldið áfram hér umræðu nema fulltrúar ríkisstjórnarinnar séu viðstaddir umræðuna. (Gripið fram í.) (GÁS: ... tveggja tíma fresti.) (LB: Er þetta yfirlýsing um að umræður í þingsal skipti ekki máli?) (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) (SvG: Hvar er forsetinn með gullhjartað, hvað varð af honum?) (Gripið fram í: Hann er steinrunninn.) (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Svo hlær hann bara.) (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

(Forseti (GÁ): Forseti gerir hlé þar til kortér yfir sex.)