Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 11:27:55 (1910)

1998-12-10 11:27:55# 123. lþ. 37.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[11:27]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér komu fram mjög athyglisverðar upplýsingar og mjög alvarlegar upplýsingar og mjög alvarlegar ásakanir sem nauðsynlegt er að fá botn í. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar er ríkisstjórn ranglætis og hefur reyndar verið það í sjö ár. En hér kemur fram að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar er ekki einvörðungu ranglát gagnvart öryrkjum og þeim sem standa illa að vígi í samfélaginu heldur er hún einnig ríkisstjórn ranglætis á markaði því hún mismunar fyrirtækjum á markaði.

Ég vil spyrja hv. formann heilbr.- og trn. hvort ekki þurfi að skoða þessi mál öll í nýju ljósi með tilliti til þeirra upplýsinga sem hann er að reiða fram nú varðandi einkarétt sem verið er að veita Íslenskri erfðagreiningu eða eignaraðilum þess fyrirtækis á rannsóknum á örverum.

Annað sem ég vildi nefna í andsvari er að það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að lagafrv. brýtur gegn EES-sáttmálanum í mörgum atriðum. Ég árétta að það brýtur einnig gegn því sem ég tel reyndar alvarlegri hlut, það brýtur gegn Helsinki-sáttmálanum, siðareglum vísindamanna og lækna um rannsóknir á fólki.

Að lokum vil ég nefna það sem hv. þm. drap á, að hann væri því hlynntur að rannsakaðar yrðu aukaverkanir lyfja og vék að mínu máli í því sambandi. Ég hef aldrei lagst gegn rannsóknum á því né öðru en ég hef haft áhyggjur af því að við séum að búa svo um hnútana að íslenska þjóðin verði öðrum þjóðum fremur fyrir barðinu á aukaverkunum lyfja eftir að búið er að setja okkur niður í tilraunabúrið.