Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 11:30:14 (1911)

1998-12-10 11:30:14# 123. lþ. 37.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. 1. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[11:30]

Frsm. 1. minni hluta heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er það stóralvarlegt mál þegar við blasir að eitt tiltekið fyrirtæki, hversu gott sem það er, hefur slík ofurtök á ríkisstjórn Íslands að hver ráðherrann á fætur öðrum virðist reiðubúinn til að brjóta allar eðlilegar reglur sem gilda í viðskiptum til að færa því einkarétt á mismunandi sviðum. Íslensk erfðagreining á að fá einkaréttinn á að nýta heilsufarsupplýsingar. Gott og vel, ef fyrirtækið keppti við önnur fyrirtæki um að nýta slíkar upplýsingar, ég hefði ekkert á móti því. Og í versta falli finnst mér auðvitað að fyrirtækið yrði að taka þátt í útboði þar sem fleirum væri gefinn kostur á að keppa um nýtingu þessara upplýsinga, en það er ekki gert. Þetta er ríkisstjórn ójafnræðis. Búið er að berja þessa ríkisstjórn með dómi Hæstaréttar vegna þess að hún hefur brotið jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar en það er eins og ríkisstjórnin geri sér ekki grein fyrir því að tímarnir eru breyttir. Meira að segja Hæstiréttur er farinn að siða ríkisstjórnina til og krefjast þess að hún láti þegnana njóta jafnræðis en það gerist ekki. Við höfum dæmið varðandi heilsufarsupplýsingarnar þar sem eitt fyrirtæki fær einkaréttinn. Við höfum dæmið af fiskimiðunum þar sem örfáir einstaklingar, örfámennur hópur fær einkarétt til að nýta þau. Það brýtur líka jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, eins og fram hefur komið, og núna blasir við samkvæmt þeim upplýsingum sem ég var að fá rétt í þessu, að það á líka að veita þessu tiltekna gælufyrirtæki, Íslenskri erfðagreiningu, einkarétt á að rannsaka íslenskar hveraörverur með hagnýtingu þeirra fyrir augum. Þá spyr ég einfaldlega: Á hvaða leið erum við? Ég taldi að við værum á leið inn í opið og lýðræðislegra samfélag og þróunin hefði öll verið með þeim hætti. En þetta er að verða ríkisstjórn einokunar og hafta, hún horfir bara aftur á við. Þetta er að verða eins og í gamla daga þar sem gæðingar ráðherranna réðu. Það erum við að sjá gerast nú og ég spyr líka: Hvers konar græðgi er það af þessum einstaklingum að vilja með þessu móti sölsa undir sig enn eitt sviðið? Mér sárnar það líka sem gömlum vísindamanni að þetta skuli gerast. Ég veit að mikil reiði er út af þessu tiltekna máli í þeim hópum sem hafa verið að véla með örverur síðustu árin.