Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 11:35:08 (1913)

1998-12-10 11:35:08# 123. lþ. 37.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. 1. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[11:35]

Frsm. 1. minni hluta heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. hefur ekki farið í það að kanna hver á þetta fyrirtæki vegna þess að formlega er ekki búið að ráðstafa sérleyfinu. Það liggur hins vegar fyrir að ríkisstjórnin hefur sagt að tiltekið fyrirtæki eigi að fá það. Mér finnst sú staðreynd skipta meiru í þessu máli að verið er að veita einkarétt heldur en hver muni fá hann. Ég tel að skaðinn felist í því gagnvart samfélaginu, sér í lagi gagnvart vísindasamfélaginu fyrir nú utan fordæmið sem í þessu felst, að menn skuli vera að feta sig inn á þá braut að veita einu tilteknu fyrirtæki einkarétt sem er að vinna upplýsingar af þessu tagi. Ég er reyndar á móti einkarétti almennt í viðskiptum. Hv. þm. spyr ... (ÖS: Ég er sammála, en ef það eru óprúttnir fjármálamenn sem standa að baki?) Ég treysti mér ekki til að fullyrða neitt um að það séu óprúttnir ... (ÖS: En skiptir ekki máli að vita það?) Það kann vel að vera en ég held að við höfum ekki í þessari stöðu neitt í höndunum sem bendir til þess. Það sem er að gerast er að í viðskiptum fara menn eins langt og þeir geta og við eigum að reyna að hasla leikvanginn. Við eigum sem löggjafi að reyna að setja leikreglur. Ég er að segja að við erum að setja rangar leikreglur. Við erum að setja leikreglur sem útiloka suma en hygla öðrum. Og það sem mér rennur til rifja er að uppgötva allt í einu að fyrir utan það að þetta ákveðna fyrirtæki sem virðist hafa þessi sterku tök á ríkisstjórn Íslands er að fá einkarétt á öllum heilsufarsupplýsingum, sem ég er alveg á móti, þá er þetta fyrirtæki líka að fá einkarétt á að rannsaka allt annað svið, þ.e. íslenskrar hveraörverur sem skiptir að vísu miklu minna máli í þessu stóra samhengi en eigi að síður er verið að veita einkarétt þarna. Við höfum sannanleg dæmi um að önnur íslensk fyrirtæki vilja fá að taka þátt í þessum rannsóknum sem eru að markaðssetja vörur og hafa þegar gert það, en það er verið að ýta þeim út og eina leið þeirra til að halda áfram á því sviði er að kaupa sig með einhverjum hætti inn í einkaréttinn sem þeir aðilar fá sem standa að Íslenskri erfðagreiningu og það finnst mér vera ólíðandi. (ÖJ: En veit formaður heilbrn. ekki hver á fyrirtækið?)