Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 11:39:37 (1915)

1998-12-10 11:39:37# 123. lþ. 37.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. 1. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[11:39]

Frsm. 1. minni hluta heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka guði fyrir þær upplýsingar sem komu fram í máli hv. þm. að heilsufarsupplýsingar skuli áfram verða til staðar á sjúkrahúsunum. Heyr á endemi!

Herra forseti. Hv. þm. kom hér upp í andsvari en hún treysti sér ekki til að svara meginspurningu minni. Hvaða rök hefur hún fyrir því að veita eigi einu tilteknu fyrirtæki einkarétt á að nýta heilsufarsupplýsingar? Ég taldi fyrri rök hennar sem áður hafa komið fram --- og ég gat þess líka að bæði Lagastofnun Háskóla Íslands og Samkeppnisstofnun hafa algerlega hafnað þessum rökum og sagt: Það þarf að skýra einkaréttinn betur, en það er ekki gert í frv. Ekkert svar. Ekkert nema tómahljóðið.

Þegar ég held því fram að Íslensk erfðagreining sé að misnota, eða koma sér upp aðstöðu til að misbeita stjórnarþingmönnum þá ræðst það af eftirfarandi:

Milli 2. og 3. umr. á að gjörbreyta frv. varðandi meðferð erfðaupplýsinga. Það á að reyna að koma inn ákvæði til að rekstrarleyfishafinn fái að halda áfram starfsleyfi eftir að 12 árum sleppir. Taka á inn apótek, auk heilbrigðisstofnana og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna. Þetta liggur fyrir. Þetta er ætlunin og þessi þrýstingur kemur ekki frá heilbrrn. Hann kemur ekki frá hæstv. heilbrrh. Hvaðan kemur hann þá? Það er rétt að hv. þm. svari því. Hver er það sem hefur fengið hana og aðra stjórnarliða til að opna á að gjörbreyta frv. milli 2. og 3. umr.? Það er ekki hæstv. heilbrrh. og hver er það þá? Dreymdi hana þetta?