Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 11:44:41 (1918)

1998-12-10 11:44:41# 123. lþ. 37.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, SvG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[11:44]

Svavar Gestsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tel að þær umræður og orðaskipti sem hafa farið fram að undanförnu setji þetta mál algerlega í nýtt ljós. Það er greinilega meiningin að breyta frv. í grundvallaratriðum næstu daga. Ríkisstjórnin ætlar að knýja í gegnum þingið milli 2. og 3. umr. algerlega nýtt þingmál sem er allt öðruvísi en það mál sem við höfum verið með. Þess vegna hlýt ég að skora á hæstv. ríkisstjórn að gera annað tveggja, að taka málið nú þegar út af dagskrá og hætta þessari þvælu á þessum fundi í dag og núna fyrir jólin og fara að undirbúa málið með öðrum hætti, eða hitt að lýsa því yfir, helst af hæstv. heilbrrh. eða talsmönnum meiri hlutans í nefndinni, að þær breytingar varðandi erfðaupplýsingar muni ekki eiga sér stað, því það er útilokað að bjóða þinginu upp á að breyta málinu í grundvallaratriðum eins og hér hefur verið lýst.

Af hverju kvaddi ég mér hljóðs um fundarstjórn forseta? Ég vil biðja forseta að kanna hið fyrsta hvort ekki er hægt að tryggja að málið verði tekið út úr umræðu hér og nú. Vegna þess að það er fjarstæða að hleypa þessari umræðu áfram ef breyta á málinu í þeim grundvallaratriðum sem upplýst var af hv. formanni heilbr.- og trn. og staðfest af varaformanni nefndarinnar.