Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 12:38:05 (1926)

1998-12-10 12:38:05# 123. lþ. 37.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÁRJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[12:38]

Ásta R. Jóhannesdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Aðeins fyrr á fundinum þegar annar forseti var í forsetastóli kom fram krafa um að umræðu um þetta mál yrði hætt nú þegar vegna þess í hvaða stöðu málið er komið. Ég ætla ekki að endurtaka þá kröfu heldur notfæri ég mér þessa leið til að eiga orðastað við hæstv. forseta vegna þess að ég hef fullnýtt rétt minn til að tala í málinu. Ég tel mjög mikilvægt vegna þess samkomulags sem orðið hefur um að málinu verði lokið klukkan tvö í dag og þeirra upplýsinga sem komið hafa fram um að fyrirhugað sé að gera breytingar í málinu og það fari aftur til nefndar milli 2. og 3. umr., að það komi fram hér, herra forseti, hvort meiri hlutinn muni draga brtt. sem liggja fyrir við málið, mjög veigamiklar brtt. til baka til 3. umr.

Ég held að mjög mikilvægt sé að það komi fram áður en við ljúkum umræðunni klukkan tvö, hvort meiri hlutinn muni draga brtt. sínar til baka til 3. umr., þ.e. þær verði ekki teknar fyrir í þinginu fyrr en að lokinni umfjöllun sem fyrirhuguð er í nefndinni eftir þessa umræðu. Ég tel mjög mikilvægt, herra forseti, að þetta komi fram. Ég teldi það fullkomlega óeðlilegt að brtt. meiri hlutans og þær brtt. sem liggja fyrir komi til atkvæðagreiðslu áður en umfjöllun nefndarinnar um stór mál sem hafa komið fram í umræðunni verður lokið.