Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 12:54:34 (1931)

1998-12-10 12:54:34# 123. lþ. 37.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[12:54]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að leiðrétta þann misskilning sem fram kom hjá hæstv. ráðherra um samkomulag um tímasetningar. Hins vegar er ljóst að umræðunni mun ljúka fyrir klukkan tvö eins og margir höfðu gert áætlun um hér í gær.

Ég vil gera nokkrar athugasemdir við ræðu hæstv. heilbrrh. Í fyrsta lagi nefnir ráðherrann að fjármagn skorti til að byggja upp gagnagrunna. Mér finnst of lítið gert úr því starfi sem unnið hefur verið og er unnið með dreifða gagnagrunna á heilbrigðisstofnunum, hjá Krabbameinsfélaginu og öðrum stofnunum sem sinna rannsóknum. Þær hafa verið tölvuvæddar, verið samræmdar og þetta er allt að vaxa upp. Ég hef miklar efasemdir um að peningaleg hlið málanna sé rétt fram sett af hálfu ríkisstjórnarinnar. Staðreyndin er sú að meðal vísindamanna og lækna er meira samkomulag um dreifða gagnagrunna en einn.

En það sem ég vildi segja að lokum, hæstv. forseti, í þessu andsvari var að nefna Helsinki-sáttmálann, alþjóðasamkomulag vísindamanna um siðareglur sem íslenska ríkisstjórnin ætlar að brjóta. Hvers vegna er ekkert minnst á þetta? Og hvers vegna fáum við engin svör við þeim spurningum sem hafa verið settar fram um þetta efni?

(Forseti (ÓE): Þetta varð ein og hálf mínúta. Og ef svona heldur áfram þá nær forseti því ekki að veita fimm hv. þm. tækifæri til að veita andsvör.)